Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Hádegisfréttir: Kanna símtal sem fór ekki til lögreglu

12.10.2020 - 12:15
Ríkislögreglustjóri og Neyðarlínan reyna nú í sameiningu að komast að því hvers vegna símtal til Neyðarlínunnar á föstudagskvöld, um eld í Grafningi, skilaði sér ekki til lögreglu. Maður fannst látinn eftir brunann, sem reyndist hafa verið í húsbíl og uppgötvaðist ekki fyrr en á hádegi daginn eftir.

Hádegisfréttir verða sagðar klukkan 12:20.

50 smit greindust innanlands í gær, þar af voru 33 í sóttkví. Töluvert færri sýni voru tekin í gær en undanfarna daga. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að næstu dagar og vikur eigi eftir að skera úr um árangur af þeim aðgerðum sem gripið var til fyrir viku síðan. 

Sóttvarnaaðgerðir verða líklega hertar á Bretlandi í dag vegna mikillar fjölgunar smita í október. Milli tíu og fimmtán þúsund greinast nú þar með Covid-19 á degi hverjum. Fleiri eru á sjúkrahúsi nú vegna sjúkdómsins en þegar faraldurinn geisaði í mars. Þá gripu stjórnvöld til útgöngubanns. 

Bardagar halda áfram í héraðinu Nagorno-Karabakh þrátt fyrir vopnahlé sem samið var um fyrir helgi. 

Formaður Þroskahjálpar fagnar sanngirnisbótum sem greiða á fötluðum einstaklingum sem voru vistaðir við illan kost á vegum ríkisins sem börn. Enn eigi þó eftir að bæta skaða þeirra sem vistaðir voru fullorðnir. 

Vinstriflokkurinn í Svíþjóð hefur fallist á að bíða með vantraust á ríkisstjórnina vegna boðaðra breytinga á lögum um vinnumarkaðinn. Vinstriflokkurinn sættir sig ekki við breytingar sem skerði rétt verkalýðsins. Hægri flokkar í stjórnarandstöðu hafa lýst stuðningi við vantrauststillögu komi hún fram.

Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga segir ekki hægt að leggja auknar álögur á íbúa með nýju umhverfisgjaldi á bíla. Bifreiðaeigendur borgi nú þegar mjög ríflega fyrir að eiga bíl.

Frettir's picture
Fréttastofa RÚV