Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Kallað eftir auknu öryggi franskra lögreglumanna

11.10.2020 - 18:55
epa08726901 French President Emmanuel Macron (R) meets with gendarme David Garcia (2nd L) during a visit to Tende, in the Vallee de la Roya, some 50kms north-east of Nice, southeastern France, 07 October 2020. Intense flooding hammered southeast France over the weekend of October 2, causing four confirmed deaths in France and two in Italy, with the toll expected to rise further as searches continue for survivors. Hundreds of people have been evacuated after storms dumped huge amounts of rain that turned streams into churning torrents that swept away cars, houses and bridges in the French Alps north of Nice.  EPA-EFE/CHRISTOPHE SIMON / POOL  MAXPPP OUT
 Mynd: EPA-EFE - AFP POOL
Hópur fólks vopnaður stálrörum og flugeldum réðst að og sat um lögreglustöð í bænum Champigny-sur-Marne í Frakklandi, um tólf kílómetra sunnan Parísar. Atvikið átti sér stað í gærkvöldi í Bois-L'Abbe-hverfinu.

Tveir lögreglumenn á vakt sem stóðu utan við lögreglustöðina áttu fótum fjör að launa þegar hópurinn birtist skyndilega. Þeim tókst að komast inn, loka og læsa til að hindra að fólkið ryddist inn á stöðina.

BBC greinir frá því að lögreglustöðin sjálf og lögreglubifreiðar urðu fyrir barðinu á ófriðarseggjunum og einhverjir skutu öflugum flugeldum að húsinu. Ekki er talið að nokkur hafi særst eða slasast.

Laurent Jeanne borgarstjóri sagði í samtali við AFP-fréttastofuna að árásin hafi verið hefndarráðstöfun vegna hjólaslyss sem varð nýlega í borginni og lögreglunni kennt um. „Engin sönnun liggur fyrir um sök lögreglu hvað það varðar,“ segir borgarstjórinn.

Lögreglumennirnir á stöðinni vita ekki hverjir voru að verki en Gerald Darmanin innanríkisráðherra skrifaði þó á Twitter að árásarfólkið hræddi ekki nokkurn mann. „Þetta lið hræðir okkur ekki frá því að halda áfram að berjast gegn útbreiðslu eiturlyfja,“ sagði ráðherrann. Eiturlyfjasala og –neysla er vandamál í Bois-L'Abbe-hverfinu.

Innanríkisráðherrann hyggst funda með fulltrúum lögreglufélaga í landinu á þriðjudag. Þau hafa um nokkurra mánaða skeið kallað eftir því að vinnuumhverfi og -öryggi lögreglumanna í landinu verði stórbætt.

Svipaðir atburðir og áttu sér stað í Champigny-sur-Marne hafa orðið í borginni Le Mans, í París og víðar um Frakkland. Yfirmenn lögreglu líkja stöðunni við stríðsástand og að virðing fyrir löggæslufólki fari æ minnkandi.