Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

„Staðnum væri sennilega betur borgið með lokun“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Bragi Skaftason, einn eigenda veitingastaðarins Tíu sopa á Laugavegi, segir að afkomu staðarins væri sennilega betur borgið ef veitingastöðum væri gert að loka. Þá gæti fyrirtækið sótt um lokunarstyrk.

Samkvæmt nýjum sóttvarnaaðgerðum mega veitingastaðaeigendur ekki hafa staðina opna lengur en til klukkan níu á kvöldin. Bragi segir algert tekjuhrun blasa við fyrirtækinu, enda megi rekja 60-70 prósent heildartekna fyrirtækisins til sölu á veitingum eftir klukkan níu á kvöldin. 

„Það er enginn í bænum. Ég held það hafi samanlagt komið inn í sal í gærkvöldi kannski 20 manns. Og það var ekkert allt fólk sem var að staldra mikið við og fá sér góða máltíð sko. Eitthvað af því, en mjög lítið,“ segir Bragi í samtali við fréttastofu. Nú þurfi staðurinn að endurskoða matseðilinn til að gera matinn vænni fyrir fólk til að taka með sér heim. „Það tekur enginn með sér heim vínglas og smárétti,“ segir hann. 

Ríkisstjórnin kynnti í gær áform um að auka mjög styrki til þeirra fyrirtækja sem þurfa að skella í lás vegna hertra sóttvarnaaðgerða. Veitingastaðir eiga ekki rétt á lokunarstyrkjum en fjármálaráðherra hefur gefið það út að nú sé í skoðun útfærsla á stuðningi til fyrirtækja sem ekki þurfa að hætta starfsemi en sjá fram á tekjuhrun vegna sóttvarnaaðgerða. 

hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV