Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Staða prests Hrafnistu aflögð - leitað til sóknarpresta

10.10.2020 - 13:32
Mynd með færslu
 Mynd: wikipedia.org
Enginn prestur er lengur í fastri stöðu hjá Hrafnistuheimilunum. Áhyggjufullur aðstandandi roskinnar konu sem býr á einu heimilanna segir hana hafa fundið fyrir miklum andlegum erfiðleikum vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar.

Því skjóti það skökku við að prestinum þar hafi verið vikið frá störfum en íbúar hafi leitað mikið til hans.

María Fjóla Harðardóttir forstjóri Hrafnistuheimilanna segir í samtali við fréttastofu að rétt sé að staða prests hafi verið lögð niður. Litið sé á Hrafnistu sem heimili íbúanna og því geti þeir eða starfsfólkið kallað til nálæga sóknarpresta þegar þörf krefur.

Hver og einn hafi rétt á að leita til síns sóknarprests en ekki sé um sparnaðarráðstöfun af hálfu Hrafnistu að ræða. Innan Hrafnistu starfi tveir félagsráðgjafar og djákni sem skipi stöður svonefndra umboðsmanna íbúa og aðstandenda.

María Fjóla segir hvern og einn geta leitað eftir þjónustu þeirra starfsmanna og jafnframt látið vita þyki þeim einhverju ábótavant í starfsemi heimilanna. Hún segir umboðsmennina hafa gefist afskaplega vel og mjög hafi dregið úr óánægju og kvörtunum.

María segist ekki hafa heyrt háværar mótmælaraddir vegna brotthvarfs prestsins en telur að samræmi þurfi að vera í störfum allra Hrafnistuheimilanna átta. Þar telji starfsfólk nú um 1500 sem sé tilbúið að sinna þörfum íbúanna 800 og þeirra 150 sem eru í dagdvöl.