Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Skipar nefnd um stefnumótun vegna gervigreindar

10.10.2020 - 09:21
Mynd með færslu
 Mynd: http://www.digitaltrends.com/
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefur skipað nefnd til að vinna tillögur að stefnumörkun um gervigreind, sem á að miða að því að hámarka samfélagslegan og efnahagslegan bata og lágmarka kostnað og áhættu.

Nefndin á meðal annars að kanna hver eru réttindi Íslendinga gagnvart nýrri tækni, hvert hlutverk tækni gervigreindar eigi að vera í íslensku samfélagi, hvaða gildi íslenskt samfélag eigi að hafa að leiðarljósi við innleiðingu nýrrar tækni og á hvaða vettvangi Ísland muni ræða og leysa álitamál sem varða innleiðingu eða notkun nýrrar tækni. Meðal þess sem á að líta til við stefnumótun er siðfræði, tækni, vinnumarkaður og samfélagslegar breytingar vegna nýrrar tækni.

Lilja Dögg Jónsdóttir, sérfræðingur í forsætisráðuneytinu, er formaður nefndarinnar. Aðrir nefndarmenn eru Kolbeinn H. Stefánsson, lektor við Háskóla Íslands, Ólafur Andri Ragnarsson, aðjúnkt við Háskólann í Reykjavík, Þorbjörn Kristjánsson, doktorsnemi í heimspeki við Háskólann í Sheffield, og Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV