Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Ólafur Jóhann hvetur til samstöðu í baráttu við veiruna

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ólafur Jóhann Ólafsson rithöfundur og fyrrverandi aðstoðarforstjóri Time Warne hvetur til sömu eindrægni í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn og ríkti á Íslandi í vor.

„Akademískar hugleiðingar um frelsi eru best geymdar þar til þessi plága er gengin yfir,” segir Ólafur í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag.

Ólafur kveður framgöngu íslensks almennings og stjórnmálamanna nú í nýrri bylgju heimsfaraldurs kórónuveiru gerólíka því sem var í fyrstu bylgjunni. Hann rifjar upp þá samstöðu sem ríkti þá með þeirri niðurstöðu að veiran var að mestu kveðin niður og lífið færðist í fastar skorður.

Hann segir orð þríeykisins hafa verið guðspjöll dagsins og þau sem lögðu sig fram við að verja almenning hafi hlotið verðskuldað þakklæti.

Orðrómur um um óeiningu innan ríkisstjórnar og viðrun kenninga um frelsi einstaklingsins geri ekki gagn í baráttunni við óvin sem „kann ekki einu sinni þá kurteisi að klæðast einkennisbúningi”.

Ólafur nefnir jafnframt harða gagnrýni í garð sóttvarnarlæknis nú, sem þyki ganga of langt og að þríeykið þurfi að endurtaka leiðbeiningar sínar í sífellu. Hann hvetur því til sömu einingar og í vor, að fólk fylgi leiðbeiningum þótt ekki væri nema til að vernda þau sem eru í hættu að veikjast illa.

Ólafur minnir jafnframt á að hver og einn gæti staðið í þeim sporum og rifjar upp örlög tveggja þekktra bandarískra leikskálda sem hann hitti á góðgerðarsamkomu í New York við upphaf faraldurins.

Mánuði eftir samkomuna höfðu báðir fallið í valinn fyrir veirunni, annar hraustur og líkamlega vel á sig kominn. Ólafur Jóhann Ólafsson segist sjálfur hafa verið heppinn að smitast ekki það kvöld, þótt hann hefði hagað sér nákvæmlega eins og hinir.