Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Norður-Kórea sýndi mátt sinn og megin á hersýningu

10.10.2020 - 16:00
epa08733423 South Koreans watch a file image news about the North Korea's apparent military parade in Pyeongchang, at a station in Seoul, South Korea, 10 October 2020. South Korea's Joint Chiefs of Staff (JCS) said on 10 October 2020 that North Korea apparently held a military parade to mark the 75th anniversary of the founding of the ruling Workers' Party of Korea.  EPA-EFE/JEON HEON-KYUN
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Tröllaukin kjarnorkuflaug sem sérfræðingar segja þá stærstu sinnar tegundar í veröldinni var meðal þess sem bar fyrir augu á mikilli hersýningu í Pyong Yang höfuðborg Norður Kóreu í dag.

Efnt var til hersýningarinnar til að fagna 75 ára afmæli Verkamannaflokksins norðurkóreska sem hefur ráðið ríkjum í landinu frá lokum síðari heimsstyrjaldar.

Ekkert benti til þess að veröldin er að glíma við heimsfaraldur kórónuveiru enda engar sóttvarnir viðhafðar. Enginn þeirra þúsunda hermanna sem marseruðu yfir Kim Il Sung torg bar grímu fyrir vitum sér og hið sama á við um leiðtogann Kim Jong-un og gesti hans sem fylgdust með sýningunni.

Hersýningunni var greinilega ætlað að sýna hernaðarmátt Norður-Kóreu og megin, ýmis hergögn voru til sýnis og orrustuþotur flugu yfir. Stórkostlegust var kjarnorkuflaugin mikla sem á að geta þotið heimsálfa á milli. Kim flutti ræðu þar sem hann fullyrti að hin illa veira hefði látið Norður Kóru alveg í friði.

Hann þakkaði landsmönnum fyrir þeirra hlut í því og sendi öllum þeim milljónum íbúa heimsins sem enn berjast við veiruna hugheilar kveðjur. Kim Jong-un fyrirskipaði algera lokun landamæra Norður Kóreu þegar í janúar til að komast hjá kórónuveirusmitum í landinu. Sérfræðingar í málefnum landsins segja það þó ekki hafa tekist.

Engum erlendum blaðamönnum né öðrum gestum var leyft að fylgjast með hersýningunni. Á Facebook síðu rússneska sendiráðsins mátti jafnframt lesa hvatningu til fulltrúa erlendra ríkja að halda sig fjarri sýningunni.