
Metfjöldi flóttafólks nær landi á Kanaríeyjum
Tæplega 3.300 flóttamenn leituðu skjóls á Kanaríeyjum fyrstu sjö mánuði ársins sem er næstum 600% aukning frá síðasta ári að mati Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Jafnframt greinir stofnunin frá því að yfir 250 hafi farist á flótta sínum yfir hafið til Kanaríeyja.
José Luis Escrivá ráðherra málefna flóttamanna á Spáni, sem er staddur á eyjunum, heitir skjótum og víðtækum viðbrögðum stjórnvalda. Blas Acosta, sveitarstjórnarmaður á einni eyjanna segir ráðherrann þó ekki hafa nokkra lausn á reiðum höndum um hvar fólkið geti hafst við.
Þeim sem komið hafa til eyjanna undanfarna sólarhringa var bjargað af 37 bátum að sögn spænsku EFE fréttaþjónustunnar. Spænski Rauði krossinn annast nú fólkið sem er flest við góða heilsu að undanskildum örfáum sem hafa væg einkenni ofkælingar. Hver og einn hefur verið skimaður við kórónuveirusmiti.
Árið 2006, sem var metár, komust 35 þúsund flóttamenn frá Vestur-Afríku að landi á Kanaríeyjaklasanum en fólki á flótta þaðan þangað hefur fjölgað að nýju undanfarin tvö ár. Margt af fólkinu leggur upp frá Senegal í 1.600 kílómetra ferð yfir opið haf.
Í liðinni viku stöðvaði senegalska strandgæslan tvo báta á þeirri leið, sem báru 186 farþega frá Senegal og Gambíu.