Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Líta til tollaverndar og afurðaverðs

10.10.2020 - 13:10
Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Hörð gagnrýni bænda á ummæli Kristjáns Þórs Júlíussonar landbúnaðarráðherra í vikunni eru að hluta til kominn vegna vanda sauðfjárræktarinnar sem verður að taka á segir Unnsteinn Snorri Snorrason, framkvæmdastjóri Landssamtaka sauðfjárbænda. Ráðherra vísaði í ummæli bænda í viðtölum um að sauðfjárbúskapur væri meiri lífstíll en spurning um afkomu. 

„Ég held að þessi gremja hún snúist um það að menn hafi viljað sjá ráðherra koma fram og tína fram þau góðu verk sem hann hefur leitt til leiða og ekki síður draga upp þau atriði sem við höfum verið að benda á. Við höfum verið að tala frá því í vor og um lengur um tollverndina og eftirlit með tollverndinni. Þar erum við að benda á hluti sem verður að skoða. Við höfum líka verið að tala um að bæta rekstrarumhverfi afurðarstöðvanna,“ sagði Unnsteinn í Vikulokunum á Rás 1. Hann sagði að það væru þrjár stoðir í landbúnaðarkerfinu; afurðarstöðvar og verð frá þeim, stuðningur og kerfisuppbygging hins opinbera og tollavernd. Hann sagði að afurðaverðið væri of lágt og breytinga að vænta í tollavernd sem gætu breytt miklu.

Baldur Þórhallsson, prófessor í stjórnmálafræði, sagði að íslensk stjórnvöld hefðu verið vel til þess fallin að takast á við margt. Breytingar á landbúnaðarkerfinu virtust hins vegar ekki falla undir það. Þó væru mörg sóknarfæri í greininni. „Bændur, svo lengi sem ég man eftir mér, hafa verið að gagnrýna léleg kjör. Þau eru að mér skilst mjög léleg hér miðað við í löndum í Evrópu sem við viljum bera okkur saman við. Það virðist vera það sama uppi á teningnum nú og fyrir 30 árum þegar ég byrjaði að fylgjast með umræðunni. Það hefur ekki náðst að breyta þessu. Spurningin er hvort að það þurfi ekki að stokka þetta upp.“