Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Grímusala tuttugufaldast á einni viku

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Sala á grímum hjá heildsölunni Kemi hefur tuttugufaldast á einni viku eftir að hertar sóttvarnaaðgerðir voru kynntar hér á landi. Ásta Sigríður Fjeldsted, framkvæmdastjóri Krónunnar, segir sömuleiðis „algjöra sprengingu“ hafa orðið í grímusölu.

Í hertum sóttvarnaaðgerðum sem kynntar voru 4. október síðastliðinn fólst að þar sem ekki væri unnt að halda eins metra fjarlægð milli fólks þyrfti að bera grímur.

Aukin eftirspurn eftir vönduðum grímum

Hermann Guðmundsson, forstjóri Kemi, segir í samtali við fréttastofu að grímusala hafi tuttugufaldast síðan aðgerðirnar voru kynntar: „Hér er gegndarlaus traffík og biðraðir fyrir utan.“

Hann segir að eftirspurn eftir betri grímum hafi aukist hratt. „Nú eru margir að skipta úr pappagrímunum yfir í betri grímur sem er léttara að anda með. Fólk finnur að það tekur úr manni kraft að geta ekki andað eðlilega,“ segir hann. 

Aðspurður um framboðið segist Hermann ekki sjá fram á neinn skort á grímum. „Við höfum getað náð grímum til landsins nógu hratt. Það er lykillinn að því að hafa undan,“ segir hann. 

Spenging í sölu á grímum í Krónunni

Ásta Fjeldsted, framkvæmdastjóri Krónunnar, segir að lítil sem engin grímusala hafi verið í versluninni fyrstu sex mánuði ársins. Töluverð aukning hafi svo orðið í júlí og ágúst. „Og svo núna er algjör sprenging í sölunni, bæði einnota og fjölnota,“ segir hún. Í síðustu viku hafi grímusala verið tíföld á við dagana áður. 

„Þetta er rosaleg breyting, núna eru allir með grímur. Við erum til dæmis í fyrsta skipti að skylda starfsfólk til að vera með grímur og við hvetjum líka viðskiptavini til að bera grímur,“ segir hún.