Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

146 börn hér á landi með COVID-19

10.10.2020 - 14:19
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
146 börn undir 18 ára aldri eru nú í einangrun hér á landi vegna kórónuveirusmita. Það eru 15 prósent af þeim sem nú eru sýktir. Jóhanna Lilja Hjörleifsdóttir, deildarstjóri á Barnaspítala hringsins, segir í samtali við fréttastofu að ekkert barn hafi verið lagt inn vegna kórónuveirusýkingar síðan faraldurinn barst hingað til lands síðasta vetur.

8 börn undir eins árs aldri eru í einangrun og 24 börn á aldursbilinu 1-5 ára. Þá eru 60 börn á aldrinum 6-12 ára smituð og 54 á aldrinum 13-17 ára. 

Jóhanna Lilja segir að Barnaspítalinn sé í sambandi við foreldra þeirra barna sem séu í einangrun, rétt eins og göngudeildin heldur utan um fullorðna sem eru sýktir, og að heilsa barnanna virðist í flestum tilvikum sæmileg.

„Líðanin er á öllu rófinu,“ segir hún en telur að ekkert barn sé það mikið veikt að það sé alveg á grensunni að vera lagt inn. Jóhanna segir að Barnaspítalinn sé vel undirbúinn til að taka á móti börnum með COVID-19 ef til þess kemur. Hún bendir á að það sé verið að skima börn í miklum mæli, ekki síst vegna smita í skólum og leikskólum. 

Fjórir á tíræðisaldri eru sýktir og 12 á aldursbilinu 80-89 ára. Langstærsti hópur smitaðra er á aldrinum 18-29 ára en 292 eru í einangrun í þeim aldurshópi. Það eru 30 prósent smitaðra.