Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Stjórnsýsla sameinaðs sveitarfélags verði á Skagaströnd

09.10.2020 - 14:10
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fulltrúar Sveitarfélagsins Skagastrandar, í nefnd um sameningu sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu, telja að stjórnsýslan eigi að vera á Skagaströnd komi til sameiningar. Sameiningarnefndin hefur lagt til að hafnar verði formlegar sameiningarviðræður.

Möguleg sameining sveitarfélaganna fjögurra í Austur-Húnavatnssýslu; Blönduósbæjar, Húnavatnshrepps, Skagabyggðar og Skagastrandar, hefur verið í bígerð frá því haustið 2017.

Leggja til að hafnar verði formlegar viðræður

Á síðasta fundi sameiningarnefndarinnar var samþykkt að leggja til við sveitarfélögin að hafnar verði formlegar sameiningarviðræður sem ljúki með kosningu íbúa. Markmið sameiningar sé bætt þjónusta, öflugri stjórnsýsla og aukinn slagkraftur við að ná árangri í byggða-, atvinnu- og samgöngumálum.

Stjórnsýslan eigi að vera á Skagaströnd

Fulltrúar Sveitarfélagins Skagastrandar lögðu fram bókun á fundinum þar sem sem fram kemur að þeir telji, komi til sameiningar, að öll stjórnsýsla sameinaðs sveitarfélags eigi að vera til frambúðar á Skagaströnd. Vel heppnað fordæmi fyrir slíku fyrirkomulagi megi finna í Snæfellsbæ þar sem öll stjórnsýsla sveitarfélagsins sé á Hellisandi þrátt fyrir að Ólafsvík sé stærsti þéttbýliskjarninn.

Íbúar óttist að öll störf og þjónusta endi á Blönduósi 

„Slíkt fyrirkomulag eykur líkur á að sameining yrði samþykkt af íbúum Skagastrandar þar sem hluti af andstöðu við sameiningu tengist ótta við að öll störf og þjónusta endi í stærsta íbúakjarna sameinaðs sveitarfélags og fátt muni sitja eftir í heimabyggð,“ segir í bókun fulltrúa Skagastrandar. „Íbúar Austur-Húnavatnssýslu hafa lengst af sótt stóran hluta af þjónustu sinni til Blönduósbæjar. Má þar nefna þjónustu sýslumanns, ÁTVR, bifreiðaskoðun, heilbrigðisþjónustu sem og almenna verslunarþjónustu. Ekki er fyrirséð að það fyrirkomulag muni breytast. Því er mikilvægt að viðhalda þjónustustigi og uppbyggingu utan stærsta byggðakjarnans og sýna íbúum fram á það í verki að markmið með sameiningu sé efling Austur-Húnavatnssýslu í heild sinni.“

Starfsstöðvar á báðum stöðum

Fulltrúar Húnavatnshrepps og Blönduósbæjar telja aftur á móti eðlilegt að stjórnsýsla nýs sveitarfélags sé staðsett bæði á Skagaströnd og Blönduósi. Í áherslum sameininganefndarinnar kemur einnig fram að starfsstöðvar verði á Skagaströnd og Blönduósi ef til sameiningar kemur.

Samþykkja tillögu um formlegar sameiningarviðræður

Sveitarstjórn Skagastrandar samþykkti tillögu sameiningarnefndarinnar, um að hefja formlegar viðræður, á fundi sínum á miðvikudag. Skagaströnd er eina sveitarfélagið, af þessum fjórum, sem fjallað hefur um tillöguna enn sem komið er.