Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Mikilvægt að nota grímuna rétt

09.10.2020 - 12:47
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Grímuskylda hefur sums staðar tekið gildi. Til dæmis verður að hafa grímu á andlitinu í strætó. Nauðsynlegt er að nota grímuna rétt svo að hún geri gagn. Hér fyrir neðan er myndband frá Almannavörnum um rétta grímunotkun.

Grímur geta hjálpað til við að draga úr hættunni á að smitast af kórónuveirunni. Þó má ekki gleyma að þvo hendurnar vel, nota handspritt og þrífa vel alla staði sem margir snerta. Til dæmis hurðarhúna og lyftuhnappa.

Það er skylda að vera með grímu í strætó, rútum, leigubílum, flugvélum og ferjum. Það er líka skylda að vera með grímu þegar farið er til læknis, á heilsugæslu eða sjúkrahús. Raunar í allri heilbrigðisþjónustu á að vera með grímu.

Landlæknir hefur gefið út leiðbeiningar um rétta grímunotkun. Þar á meðal þetta:

 • Rök og óhrein gríma gerir ekkert gagn. Hún eykur frekar sýkingarhættu.
 • Einnota grímur, sem eru notaðar oftar en einu sinni, auka líka sýkingarhættu.
 • Gríman þarf hylja bæði nef og munn. Annars gerir hún ekkert gagn.

Þetta þarf líka að hafa í huga um grímur:

 • Grímur þurfa að vera úr þremur lögum af efni svo að þær gefi góða vörn. Bæði einnota grímur og fjölnota grímur.
 • Einnota gríma endist í 4 klukkustundir. Eftir það þarf að setja á sig nýja grímu.
 • Gríman verður að snúa rétt. Á einnota grímum á bláa hliðin að snúa út og hvíta hliðin að andlitinu.
 • Stífari brúnin á einnota grímu er með spöng sem er hægt að beygja. Spöngin á að fara yfir nefið og lagast að því.
 • Það á að henda notaðri grímu í ruslið ef hún er einnota. Það á alls ekki að henda henni út í náttúruna eða út á götu.
 • Fjölnota grímu á að þvo að minnsta kosti einu sinni á dag, helst oftar. Annars eykur hún sýkingarhættu.
 • Ekki skal snerta grímuna, sérstaklega þegar hún er sett upp. Bara halda í teygjurnar. Snerting getur borið sýkla í grímuna.
 • Gríman verður að hylja bæði nef og munn og ná niður fyrir höku. Annars gerir hún ekki gagn.
 • Það á ekki að nota grímu sem nær niður á háls, eða setja grímu á hálsinn. Það eykur líkur á að sýklar komist niður á háls og mengað svæði grímunnar beri sýkla á aðra staði.