Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Lögregla kom að ungmennum að stelast í sund

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fékk tilkynningu á tíunda tímanum í gærkvöld um að hópur af ungmennum væri kominn inn á lóð sundlaugar í óleyfi.

Útkallið barst á hverfisstöð lögreglu sem sinnir Kópavogi og Breiðholti. Þegar lögregla kom á vettvang voru öll ungmennin nema eitt komin ofan í laugina, en málið var afgreitt með aðkomu foreldra.

Á sjötta tímanum í gær var par í annarlegu ástandi yfirbugað af lögreglu í verslun. Annar aðilinn var talinn vera með hníf og vera ógnandi í hegðun og grunaður um innbrot í fyrirtæki. Parið var handtekið og flutt á lögreglustöð.

Tilkynnt var um þjófnað á fartölvum úr heimahúsi í gærkvöld, en þar leikur grunur á að þjófurinn hafi farið inn á heimilið á meðan húsráðendur voru heima.

Ekið var á hjólreiðamann á sjötta tímanum í gærkvöld og var hann fluttur með sjúkrabíl til aðhlynningar á bráðamóttöku, en í dagbók lögreglu fylgir ekki hvernig líðan hans er. 

Þá voru nokkrir ökumenn stöðvaðir vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna, auk þess sem lögregla sinnti hávaðaútköllum í fjölbýlishús.

andriyv's picture
Andri Yrkill Valsson
Fréttastofa RÚV