Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Ósátt við framkvæmdir borgarinnar í Öskjuhlíð

08.10.2020 - 09:00
Mynd: Fréttir / Fréttir
Reykjavíkurborg hyggst leggja malbikaðan göngustíg í Öskjuhlíð til að bæta aðgengi að útivistarsvæðinu. Framkvæmdir hefjast á næstu vikum. Hlauparar, hjólagarpar og aðrir sem sækja mikið í svæðið eru ósáttir við ákvörðun borgarinnar. 

Á að bæta aðgengi

Nýi stígurinn verður lagður frá gatnamótum Bústaðavegar og Flugvallarvegar og á að hlykkjast upp í gegnum skóginn. Hann verður langur og í sveigjum en markmiðið er að ná ásættanlegum halla svo stígurinn verði fær flestum. 

Mynd með færslu
 Mynd: Fréttir

Þórólfur Jónsson, deildarstjóri náttúru og garða hjá Reykjavíkurborg, segir að lengi hafi verið kallað eftir stíg sambærilegum þessum. „Ef maður kemur frá miðborginni, frá Hlíðunum, frá Norðurmýrinni, yfir Miklubraut, þá tekur ekkert við manni. Það er enginn stígur sem maður kemst upp í Öskjuhlíð. Maður þarf að taka svona langan krók. Þannig að það hefur lengi legið fyrir að við þurfum að fá stíg þarna til að geta bætt aðgengi fólks að Öskjuhlíðinni.“

Spurður hvort verðmæti séu ekki fólgin í óspilltum svæðum innan borgarmarkanna segir hann svo vera. Með stígnum sé ekki verið að spilla náttúru heldur bæta aðgengi fólks að henni. 

Stofnuðu undirskriftarlista til að mótmæla framkvæmdunum

Öskjuhlíðin er eitt vinsælasta útivistarsvæði borgarinnar. Hún er nokkuð brött, stórgrýtt og skógi vaxin. Og malarstígar sem hlykkjast um hana eru mikið notaðir af til að mynda göngufólki, hlaupurum og fjallahjólagörpum. Margir úr þeirra hópi hafa harðlega gagnrýnt fyrirhugaðar framkvæmdir og skrifað undir skjal þar sem þeim er mótmælt. Elísabet Margeirsdóttir, hlaupari, er ein þeirra. 

„Hér um kring eru ótrúlegir heimsklassa náttúrustígar sem mér þykir mjög vænt um. Ég myndi vilja staldra aðeins við og vilja skoða þetta betur og að það yrði talað við alla þá hópa sem nota Öskjuhlíðina mikið og kanna þessa notkun og síðan mögulegar þarfir og mögulegar breytingar sem þarf að gera á Öskjuhlíð svo hún verði aðgengilegri fyrir fleiri hópa en kannski án þess að raska þeim stígum sem eru þegar til staðar.“

Mynd með færslu
 Mynd: Fréttir

Þórólfur segist hafa fylgst með gagnrýnisröddunum. „Ég tel kannski að þau séu aðeins að mikla fyrir sér hvað við ætlum að gera og fólk er líka að blanda saman við þetta hugmynd sem er svokölluð Perlufesti.“

Ræða næstu framkvæmdir á svæðinu

Perlufestin er hugmynd að steyptum eða malbikuðum hringlaga göngustíg með ýmsum útsýnis eða minja „ perlum" á víð og dreif. Framkvæmdir við hana hefjast að öllum líkindum á næsta ári en vinna við forhönnun á næstu vikum. Elísabet hefur haft samband við Reykjavíkurborg vegna framkvæmdanna. „Ég hef verið í sambandi og sett mig í samband við fólk innan borgarinnar og fengið bara mjög jákvæð viðbrögð og þau vilja endilega setjast niður og ræða málið frekar.“