Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Grunnskólakennarar skrifa undir kjarasamning

08.10.2020 - 00:12
Mynd með færslu
Íslenskutími hjá 8. bekk í Hrafnagilsskóla Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Félag grunnskólakennara og samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga skrifuðu undir nýjan kjarasamning á ellefta tímanum í kvöld. Samningurinn verður kynntur félagsmönnum á næstu dögum og í kjölfarið verður efnt til atkvæðagreiðslu. Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar þarf að liggja fyrir 23. október.

Samingurinn gildir til ársloka 2021 og segir Þorgerður Laufey Diðriksdóttir í samtali við fréttastofu að hann sé í samræmi við lífskjarasamninga sem gerðir hafa verið við önnur stéttarfélög.

„Miðað við aðstæður í samfélaginu er þetta það sem mögulegt var á þessari stundu. Þetta er samningur sem við teljum mögulegt að bera undir félagsmenn í atkvæðagreislu,“ segir Þorgerður. Aðspurð hvort hún telji að kennarar samþykki samninginn segir hún: „Maður veit aldrei hvernig svoleiðis fer.“

Þorgerður segir að samið hafi verið um krónutöluhækkun í samræmi við lífskjarasamninginn. Þá hafi verið samið um innleiðingu starfsmats fyrir félagsmenn og sveigjanlegt starfsumhverfi kennara sem taki mið af því að þeir vinni bæði staðbundið og óstaðbundið.

ingvarthor's picture
Ingvar Þór Björnsson
Fréttastofa RÚV