Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Um helmingur íbúa hefur hrakist á vergang

07.10.2020 - 07:56
epa08724886 A woman walks in her house allegedly damaged by an alleged recent shelling in the downtown of Ganja in Agdam region in Nagorno Karabakh, 06 October 2020. Armed clashes erupted on 27 September 2020 in the simmering territorial conflict between Azerbaijan and Armenia over the Nagorno-Karabakh territory along the contact line of the self-proclaimed Nagorno-Karabakh Republic (also known as Artsakh).  EPA-EFE/AZIZ KARIMOV
Margir hafa misst heimili sín í bardögum Armena og Asera undanfarna daga. Mynd: EPA-EFE - EPA
Um helmingur íbúa héraðsins Nagorno-Karabakh hefur hrakist frá heimkynnum sínum síðan átök blossuðu upp milli Armena og Asera í síðustu viku eða allt að 75.000 manns. Fréttastofan AFP hafði þetta eftir embættismanni í héraðinu í morgun.

Ekkert lát er á átökum Armena og Asera þrátt fyrir tilmæli um að semja um vopnahlé og setjast að samningaborði um lausn deilunnar um Nagorno-Karabakh. 

Mevlut Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrklands, kom til Aserbaísjan í gær og gagnrýndi þá alþjóðasamfélagið fyrir að reyna ekki að finna viðunandi lausn á deilunni. Vopnahlé dygði ekki eitt og sér til að binda enda á átök Armeníu og Aserbaísjan.

Utanríkisráðherrar Rússlands og Írans ræddu í gær deilur Armena og Asera og kváðust hafa miklar áhyggjur af fregnum um að íslamskir vígamenn frá Sýrlandi og Líbíu væru komnir til Aserbaísjan til að berjast gegn Armenum.

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV