Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Segist undrandi á skilaboðum landbúnaðarráðherra

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður, segir ummæli landbúnaðarráðherra vanta veruleikatengingu og að hann virðist ekki hafa áhyggjur af því að íslenskir bændur hafi hvað slökustu kjörin innan Evrópu.

„Ég er undrandi yfir þessum skilaboðum. Þetta er skrítin nálgun. Það er alveg ljóst að kerfið bíður upp á það að bændur eru með hvað slökustu kjörin innan Evrópu en ráðherra hefur ekki áhyggjur af því,“ sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður og formaður Viðreisnar, þegar hún var spurð út í þau svör sem hún fékk frá Kristjáni Þór Júlíussyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á Alþingi í gærkvöldi.

Þar spurði hún Kristján Þór hvernig hann hygðist ætla að bæta kjör bænda og stuðla að betra verði til neytenda. Kristján Þór sagði meðal annars að margir bændur teldu sauðfjárbúskap vera spurning um lífsstíl frekar en afkomu. 

Þorgerður Katrín segir þessi ummæli vanta veruleikatengingu. Vissulega sé fegurð í því að vera bóndi og ákveðinn lífsstíll en bændur þurfi að lifa. Það sé raunveruleiki sem ráðherra þurfi að horfast í augu við og breyta kerfinu þannig að þau framlög sem séu sett inn í landbúnaðarkerfið skili sér á endanum til bænda en ekki inn í kerfið sjálft.

Fjármunir þurfi að skila sér til bænda

„Það er fjandi skítt ef að kerfið sem við setjum hvað mest í miðað við Evrópuþjóðir er ekki að skila sér til bænda. Það er eitthvað skrítið og þá hljóta menn að spyrja hvaða hagsmuna sé verið að gæta,“ segir Þorgerður Katrín. Hún segir að það þurfi að stokka upp í kerfinu. Neytendur séu tilbúnir að borga hvað hæsta verð í Evrópu fyrir íslenskar vörur, en ekki ef það verð skili sér ekki til bóndans.

Vill opna markaðinn og stækka hann

Það þurfi að auka frelsi bænda, fara meira í út í græna hvata og umhverfisstyrki þannig að bændur geti ráðið því hvað henti þeim best hverju sinni. Þá vill hún láta opna markaðinn og stækka. Kristján Þór sagði í gær að ýmislegt hefði verið gert til þess að auka frelsi, til dæmis aðlögunarsamningar í sauðfjárrækt og verkefni um heimaslátrun. Hann geti tekið undir að það sé brýnt að stækka markaðinn en telur hins vegar betra og einfaldara að vinna fyrir markaðinn hér heldur en að ráðast í útrás. Að stækka hlutdeild íslenskrar framleiðslu á íslenskum markaði.