Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Rétt slapp í jólaklippinguna áður en skellt var í lás

Mynd: Hjalti Haraldsson / Hjalti
Hertar aðgerðir hafa tekið gildi á höfuðborgarsvæðinu en rúmlega 95 prósent smita síðustu daga hafa greinst þar. Reykvíkingar sem fréttastofa tók tali í dag höfðu sett upp grímu en kipptu sér lítið upp við breytingarnar. Skagamenn hafa litlar áhyggjur af því að höfuðborgarbúar sæki þjónustu þangað vegna lokana. 

Til viðbótar við 20 manna samkomutakmark á landinu öllu er tveggja metra reglan nú í gildi á höfuðborgarsvæðinu, grímuskylda hefur verið hert og ýmis starfsemi er óheimil, nudd- og hárgreiðslustofur hafa til að mynda skellt í lás, sundlaugar lokað og mörg leik- og menningarhús. 

Hertar aðgerðir gilda ekki í sveitarfélögunum næst höfuðborgarsvæðinu, eins og  á Akranesi. Þrátt fyrir að mikill fjöldi fólks fari þar á milli á hverjum degi. Áhyggjur vöknuðu um að borgarbúar myndu leita til þessara bæja í auknum mæli til þess að sækja þjónustu.  

Mikið álag er á almannavarnadeild ríkislögreglustjóra vegna fjölda fyrirspurna um hertar aðgerðir.  Á vefsíðunni covid.is, má fá svör við öllum helstu atriðum sem kunna að vefjast fyrir fólki. 

Fréttastofa tók nokkra Reykvíkinga og Skagamenn tali í dag, en viðtölin má sjá í spilaranum hér að ofan.