Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

QAnon verður úthýst af Facebook og Instagram

07.10.2020 - 04:29
epa08619156 A man holds a cross at a QAnon conspiracy rally in Hollywood, California, USA, 22 August 2020. A conspiracy by QAnon conspiracy theorists has circulated, without evidence, accusing Hollywood actors of engaging in crimes against children.  EPA-EFE/CHRISTIAN MONTERROSA
 Mynd: EPA
Facebook og Instagram tilkynntu í gærkvöld að lokað verði á alla notendur sem tengjast samsæriskenningahópnum QAnon. Þannig vilja miðlarnir reyna að koma í veg fyrir að þeir verði nýttir til þess að blekkja eða rugla kjósendur í forsetakosningunum í Bandaríkjunum í næsta mánuði.

Allar síður og hópar tengdir QAnon verða fjarlægðir af Facebook og notendur sem tengjast hópnum verða fjarlægðir af Instagram. Engu skiptir hvort efnið sem þeir birta er ofbeldishneigt eður ei, hefur AFP fréttastofan eftir yfirlýsingu. 

QAnon er á lista Alríkislögreglunnar FBI yfir hreyfingar sem geta hvatt hópa eða einstaklinga til glæpa eða ofbeldisglæpa. Hundruð hópa sem tengdust QAnon voru fjarlægðir af Facebook í ágúst og hömlur settar á nærri tvö þúsund til viðbótar í tilraun miðilsins til að koma í veg fyrir að þar birtist efni sem hvetur til ofbeldis. Facebook hefur síðar fengið ábendingar um að efni frá QAnon birtist áfram á miðlinum þrátt fyrir aðgerðirnar. 

Meðal samsæriskenninga QAnon eru að heiminum sé stýrt af djöfladýrkandi barnaníðshring sem aðeins Donald Trump geti stöðvað. Eins heldur hreyfingin því fram að kórónuveirufaraldurinn sé samsæri sama hóps, sem notar 5G og bóluefni svo til þess að stjórna fólki.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV