Átök brutust úr í sóttvarnarhúsinu á Rauðarárstíg um hálf níu í gærkvöldi og þurfti að kalla lögreglu til. Um klukkustund fyrr var lögreglu einnig tilkynnt að einn væri að strjúka þaðan úr sóttkví.
Lögregla hafði fljótlega uppi á honum á Hlemmi og gaf þau fyrirmæli að viðkomandi skyldi fara aftur í sóttvarnarhúsið í sóttkví.
Stuttu seinna brutust út átök þar og segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu að gestur hússins hafi verið ósáttur með vistina í húsinu. Gesturinn fékk tiltal frá lögreglu og róaðist.
Þá var lögreglu tilkynnt um konu í annarlegu ástandi að trufla AA fund í Tjarnargötu. Lögregla ók konunni til síns heima.
Klukkan fjögur í nótt ók ökumaður á umferðarljósavita í Kópavogi. Ökumaðurinn ók af vettvangi en var stöðvaður skömmu síðar og fluttur á slysadeild til aðhlynningar.
Einnig var tilkynnt um rúðubrot í miðbæ Reykjavíkur upp úr tíu í gærkvöldi. Þar hafði steini verið kastað innum stofuglugga.