Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

2020 gott ár fyrir íslenska örninn

06.10.2020 - 04:48
Fullorðinn haförn við Steitishvarf milli Breiðdalsvíkur og Berufjarðar. Myndina tók Yann Kolbeinsson 14. nóvember 2014.
 Mynd: Yann Kolbeinsson - RÚV
Árið 2020 virðist ætla að verða eitt það hagfelldasta fyrir íslenska haförninn sem staðfestar sögur fara af. Frá því að byrjað var að fylgjast skipulega með afkomu arnarstofnsins árið 1959 hafa aðeins einusinni komist fleiri ungar á legg en nú. Það var í fyrra, þegar 56 ungar komust á legg. Í ár komst 51 á legg í 60 arnarbælum. Morgunblaðið greinir frá og hefur eftir Kristni Hauki Skarphéðinssyni, dýravistfræðingi hjá Náttúrufræðistofnun.

Um 85 pör eru í íslenska arnarstofninum, flest þeirra við Breiðafjörð, en þeir verpa þó allt sunnan frá Faxaflóa norður og austur í Húnaflóa, og hafa átt það til að flækjast enn víðar. Litlu mátti muna að stofninn dæi út um miðbik síðustu aldar, og voru varppör aðeins talin vera um 20 talsins þegar verst lét, á sjöunda áratugnum, segir í frétt Morgunblaðsins.