Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Margir hafa nýtt sér að geta tekið út séreignasparnað

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fjöldi fólks hefur nýtt sér úrræði stjórnvalda um útgreiðslu séreignarsparnaðar. Í byrjun október höfðu verið greiddir út 16,7 milljarðar króna.

Á meðal þeirra aðgerða sem ríkisstjórnin hefur hrundið af stað til að mæta efnahagslegum áhrifum faraldursins er að heimila fólki að fá greiddan út séreignasparnað, allt að tólf milljónum króna. Opnað var fyrir úttektir fyrsta apríl og er hægt að taka út séreignalífeyrissparnað fram að áramótum. 

Á vef stjórnarráðsins kemur fram að alls höfðu 16,7 milljarðar króna verið greiddir út 7. september. Í ágúst hafi um fimm þúsund manns fengið greiðslur. Meðalgreiðslan fyrstu mánuðina sé um hálf milljón króna. 

Atvinnuleysi hefur aukist í kórónuveirufaraldrinum og leiða má líkur að því að einhverjir hafi nýtt sér úrræðið núna á meðan hart er í ári. Aðrir hafa hugsanlega nýtt sér sparnaðinn til þess að ráðast í framkvæmdir. 

Fréttastofa spurðist fyrir hjá viðskiptabönkunum þremur hversu margir hefðu nýtt sér úrræðið hjá þeim, til að fá mynd á umfangið. Hjá Landsbankanum hafa alls rúmlega 4.300 manns tekið út séreignalífeyrissparnað, þegar allt er talið með. Þar af tóku um tvö þúsund sjóðsfélagar í Íslenska lífeyrisjóðinum út séreignasparnað samkvæmt úrræði stjórnvalda og 2.300 viðskiptavinir tóku út séreignasparnað úr Lífeyrisbók Landsbankans eða Fjárvörslureikningi Landsbankans, sem er safn erlendra verðbréfa. Flestir tóku út minna en eina milljón króna af séreign sinni og aðeins tvö prósent þeirra meira en sex milljónir, segir í svari frá bankanum. 
 
Alls hafa rúmlega 2.600 sjóðsfélagar Lífeyrisauka hjá Arion banka nýtt sér heimildina og hafa alls verið greiddir út um þrír milljarðar króna. Meðalúttekt hjá bankanum er því um 1,2 milljónir króna. 

Hjá Íslandsbanka hafa rúmlega 2.100 tekið út séreignalífeyrissparnað, flestir á aldrinum 30 til 49 ára. Meðal úttekt er ríflega 900 þúsund krónur. Heildarfjárhæð frá fyrsta apríl nemur ríflega 1,9 milljörðum króna.   

Fréttin var uppfærð 3.október með heildarupphæð úttekta og svo aftur 21.október þegar fyrirsögn var breytt.

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV