Sterkur Njarðvíkursigur - Tindastóll tapaði heima

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú

Sterkur Njarðvíkursigur - Tindastóll tapaði heima

01.10.2020 - 21:57
Fjórir leikir fóru fram í kvöld í fyrstu umferð Dominosdeildar karla í körfubolta. Njarðvík sótti tvö stig í Frostaskjól og Tindastóll tapaði gegn ÍR á heimavelli.

Njarðvík sótti KR heim í Frostaskjól í kvöld og var leikurinn tiltölulega jafnt. Njarðvík var fjórum stigum yfir eftir fyrsta leikhluta og fimm stigum yfir í hálfleik, 52-47. Eftir þriðja leikhlutann var munurinn kominn í þrjú stig en í fjórða leikhluta setti Njarðvík í fluggír. Mest komst Njarðvík 15 stigum yfir og þeir sigldu svo í höfn 12 stiga sigri, 92-80.

Mikil spenna var fyrr í kvöld þegar nýliðar Hattar tóku á móti Grindavík. Höttur var yfir mestallan leikinn en Grindvíkingar sóttu að í lokin og var jafnt þegar leiktíminn var liðinn, 80-80. Í framlengingu voru þrautreyndir Grindvíkingar hins vegar sterkari og unnu með 101 stigi gegn 94.

Tindastóli er spáð velgengni í vetur en liðið byrjaði á tapi á heimavelli. Ferskir ÍR-ingar sigur framúr í fjórða leikhluta eftir sveiflukenndan leik. ÍR vann fjögurra stiga sigur, 87-83.

Í Þorlákshöfn unnu Þórsarar svo Hauka í miklum stigaleik, 105-97.

Tengdar fréttir

Körfubolti

Stjörnunni spáð sigri í körfunni