Óska eftir stað undir 2 metra bronsstyttu af Jóni Páli

Mynd með færslu
 Mynd: WorldStrongestMan.com - RÚV

Óska eftir stað undir 2 metra bronsstyttu af Jóni Páli

01.10.2020 - 13:34
Fjölskylda Jóns Páls Sigmarssonar, með son hans og barnsmóður í broddi fylkingar, hafa safnað áheitum fyrir styttu af kraftlyftingamanninum. Hópurinn hefur óskað eftir því við borgina að styttan fá að rísa við Jakaból þar sem Jón Páll steig sín fyrstu skref í lóðaþjálfun.

Jón Páll Sigmarsson er án efa einn þekktasti kraftajötunn Íslands.  Hann lést árið 1993 aðeins 33 ára að aldri en hafði þá tekist að verða Sterkasti maður heims fjórum sinnum.

Í bréfi til menningar-og íþróttaráðs, sem tekið var fyrir á fundi ráðsins í vikunni,  kemur fram að Jón Páll hafi unnið sig inn í hug og hjörtu Íslendinga og orðið heimsfrægur sem „faðir nútíma aflrauna.“ Frá árinu 1993 hafi verið áhugi fyrir því að reisa af honum styttu og margir reynt að koma því á framfæri en án árangurs. 

Nú hafi hópi fólks með barnsmóður Jóns Páls og syni í fararbroddi tekist að safna áheitum fyrir styttunni. Það vanti bara stað og nefnir hópurinn húsnæðið sem síðar var úthlutað til lyftinga og var þekkt sem Jakaból. Þar hafi Jón Páll stigið sín fyrstu skref í lóðaþjálfun.

Fram kemur í bréfinu að kraftlyftingamaðurinn hefði orðið sextugur í apríl á þessu ári. Það sé því hópnum mikið kappsmál að fá samþykki fyrir styttunni. 

Styttan verður tveir metrar að hæð og metri á breidd. Hugmyndin sé að hún verði hefðbundin bronsstytta og að á henni verði að finna stutt æviágrip um Jón Pál. „Hópurinn tekur fulla ábyrgð á öllum kostnaði og framkvæmdum við reisa styttuna sem og viðhaldi hennar.“

Tengdar fréttir

Innlent

„Ofsalega fegin þegar hann var orðinn 32 ára“

Innlent

Fyrirmyndirnar allar á sterum

Afþreying

Þegar Jón Páll velti bíl við Nóatún

Innlent

Þegar Jón Páll kastaði mótherja í sjó