Klassískur heimilismatur vinsælastur hjá verkamönnunum

Mynd: Karl Sigtryggsson / RÚV/Landinn

Klassískur heimilismatur vinsælastur hjá verkamönnunum

01.10.2020 - 10:53

Höfundar

„Þessar einbreiðu brýr hafa verið hættulegar, mishættulegar að sjálfsögðu eins og gengur og gerist. það er gríðarleg umferð hérna þegar það eru ekki covid takmarkanir. Ég hef trú á því að þetta breyti miklu fyrir íbúana," segir Hjálmur Sigurðsson, verkfræðingur hjá Ístak.

Landinn leit við í Steinavötnum í Suðursveit þar sem verið er að reisa nýja brú yfir Steinavötn. Þrjátíu og sex einbreiðar brýr eru á Hringveginum og flestar þeirra eru á Suðurlandi.  Þeim fækkar fljótlega um fjórar því í smíðum eru brýr yfir Brunná austan við Kirkjubæjarklaustur, Kvíá í Öræfasveit og í Suðursveitinn koma nýjar brýr yfir Fellsá og svo yfir Steinavötnum. 

Að jafnaði eru um 25 manns að vinna við brúrarframkvæmdirnar, dreift á milli brúa en alveg upp í fjörtíu manns þegar mest er.

Gunnar Gunnlaugsson, brúarsmiður og eigandi Verktakafyrirtækisins Mikael, hefur smíðað allmargar brýr, víða um land. Hann býr á Höfn í Hornafirði og tók því fagnandi að fá brúarframkvæmdir nálægt sér. „Þetta eru búnar að vera milli 25-30 brýr sem ég hef komið nálægt."

Gunnar segir góða stemmningu ríkja á svona vinnusvæði. „Hún er yfirleitt mjög góð. Maður þarf að sjá um að það sé góður matur, þokkalegur aðbúnaður og ekki keyra þá alveg í þrot og þá er þetta allt í lagi. Og þetta eru þokkalegar tekjur," segir hann. 

Selma Björt Stefánsdóttir er matselja á staðnum en hún býr skammt frá vinnusvæðinu. Hún segir mikilvægt að hafa nóg að borða fyrir svanga vinnumenn. „Þeir borða mjög vel, þeir vinna mjög mikið líka þannig maður verður að hafa vel að borða fyrir þá," segir Selma sem var með kjötbollur í hádegismat þegar Landann bar að garði.
Hún segir klassískan heimilismat vinsælastan. „Lambakjöt, kjötbollur og mikið af kartöflum," segir Selma.