Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Ísland vel tilbúið að takast á við halla ríkissjóðs

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Meira svigrúm er til að þola tímabundinn halla, líkt og blasir nú við ríkissjóði, ólíkt því sem var fyrri kreppum. Þetta er mat Björns Berg Gunnarssonar deildarstjóra greiningardeildar Íslandsbanka.

Þing verður sett í dag og í kvöld flytur Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra stefnuræðu sína. Mánudaginn 5. október, í annari viku þingsins, hefst fyrsta umræða um fjárlagafrumvarp 2021 og fyrri umræða um fjármálaáætlun.

Í lok maí samþykkti Alþingi frumvarp fjármálaráðherra til þess að veita ráðrúm til undirbúnings endurskoðunar fjármálastefnu fyrir árin 2018–2022, fjármálaáætlunar fyrir árin 2021–2025 og fjárlagafrumvarps fyrir árið 2021.

Ákveðið var að leggja málin fram samhliða á þingsetningarfundi í haust ásamt þeim skattalagabreytingum og öðrum ráðstöfunum í ríkisfjármálum sem því fylgja. Nú stefnir í að ríkissjóður verði rekinn með verulegum halla.

Björn Berg Gunnarsson, deildarstjóri greiningar Íslandsbanka, segir að ólíkt því sem verið hefur í fyrri kreppum fari íslenskt efnahagskerfi minna skuldsett inn í kórónuveirukreppuna.

Þá segir hann að meira svigrúm sé til að þola tímabundinn halla eins og ríkissjóður stendur nú frammi fyrir. Björn segir aðgengi að lánsfjármagni vera gott, bæði erlendis og í íslenskum krónum.

Það sé dýrmætt því að til að unnt sé að vega á móti tímabundinni kreppu geti ríki og sveitarfélög ráðist í útgjöld, bæði til að styrkja þá sem illa standa og til að geta hafið arðbærar innviðaframkvæmdir.

Björn Berg segir það hjálpa í aðstæðunum og geri Íslendinga vel tilbúna að fara í gegnum þetta tímabundna ástand. Þótt kreppan sé alvarleg séu Íslendingar betur í stakk búnir að takast á við ástandið nú og komast í gegnum það en í kreppunni 2008.