Framkvæmdaleyfi Teigsskógar stendur - „brýn nauðsyn“

01.10.2020 - 17:54
Mynd með færslu
Flæður og leirur við Teigsskóg Mynd: Ólafur Arnalds
Úrskurðarnefnd umhverfis-og auðlindamála hefur staðfest ákvörðun sveitastjórnar Reykhólahrepps um að veita Vegagerðinni framkvæmdaleyfi fyrir Vestfjarðarvegi um Teigsskóg sem er milli Bjarkarlundar og Skálaness. Úrskurðarnefndin segir sveitastjórnina hafa fært ásættanleg rök fyrir því að þeir samfélagslegu hagsmunir sem hafi í för með sér aukið umferðaröryggi vegfarenda feli í sér brýna nauðsyn. Þetta séu almannahagsmunir og fjölmargir aðrir kostir verið skoðaðir áður en ákvörðun var tekin.

Tvær kærur bárust vegna framkvæmdaleyfisins; önnur frá Landvernd og landeigendum að Hallsteinsnesi og Gröf en hin frá Náttúruverndarsamtökum Íslands og Fuglaverndarfélagi Íslands. 

Deilt hefur verið um leiðina vegna umhverfisáhrifa hennar á Teigsskóg, sem er stærsti samfelldi birkiskógur á Vestfjörðum, sem og leirur og dýralíf.

Kærurnar voru margþættar en báðar voru á einu máli um að Vegagerðin hefði þvingað umrædda leið upp á sveitastjórnina. Það hefði hún gert með því að segja að ef dýrari leið yrði fyrir valinu myndi aukatilkostnaður falla á sveitarfélagið.

Úrskurðarnefndin segir engum blöðum um það að fletta að brýn nauðsyn sé á samgöngubótum á þessu svæði.  Þá er á það bent að ef ekki yrði farið með veginn um þetta land yrði umræddur vegur lagður um land annarra landeigenda sem eru vel á þriðja tug. „Mismunandi leiðarval myndi því ávallt leiða til íþyngjandi ákvörðunar gagnvart einhverjum landeigendum.“

Nefndin kemst því að þeirri niðurstöðu að ákvörðun sveitarfélagsins hafi ekki verið háð þeim efnis-og formmörkum að hægt sé að ógilda hana og var kröfunni því hafnað. 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi