Bændur neyddir til núvitundar

Mynd: RÚV / RÚV

Bændur neyddir til núvitundar

01.10.2020 - 14:19

Höfundar

Harpa Rún Kristjánsdóttir fer með hlustendur Lestarinnar á Rás 1 í sveitina þar sem hún íhugar fyrirbærið núvitund og ómeðvitaðar núvitundaræfingar bænda.

Harpa Rún Kristjánsdóttir skrifar:

Núvitund. Eins og önnur hver hugsandi nútímamanneskja hef ég undanfarin misseri haft miklar áhyggjur af skorti mínum á núvitund. Hún virðist vera það sem öllu máli skiptir, lykillinn að streitulausu lífi í firringu nútímans, lausin á kvíðanum, leiðin frá þunglyndinu. Ég hafði lesið bækur og greinar á alnetinu, horft á fjölda myndbanda og sótt fyrirlestra, þegar ég áttaði mig á því að ef til vill væri ég að leita langt yfir skammt.

En byrjum á byrjuninni. Núvitund á rætur að rekja til Búddisma og vestrænni nútímahugsun er tamast að tengja hana við hugleiðslu. Á heimasíðu Núvitundarsetursins segir: Núvitund er sú vitund sem skapast við að beina athyglinni með ásetningi, á þessu augnabliki, að því sem er, eins og það er, án þess að dæma. Innleiðing núvitundar í vestræn læknavísindi er gjarnan kennd við ameríska lækninn Jon Kabat-Zinn, sem kynnti hana sem lið í lækningu við streitu, kvíða og langvinnum verkjum. Í síflæðandi upplýsingasamfélagi getur kostað töluvert hugrænt átak að tileinka sér þennan hugsunarhátt, en þó er til fólk sem hefur ekkert val í þeim efnum.

Ég er auðvitað að tala um bændur, hvað annað ætti ég að tala um? Kannski liggur ekki í augum uppi að draga línu milli bændastéttarinnar og hugleiðslu. Raunar held ég að fjölmörg þeirra bænda sem ég þekki setji hér upp svip fullan tortryggni. En bíðum við.

Núvitund er einhverskonar hugleiðsla og einn mikilvægasti þáttur hugleiðslunnar er rútína, eða að hafa reglu á hlutunum. Ein fyrsta ráðleggingin sem byrjendum á sviði hugleiðslu er gefin er sú að koma sér upp svokallaðri morgunrútínu þar sem snjalltækin eru lögð til hliðar og huganum einbeitt að einhverju ákveðnu atriði. Til dæmis því að anda, eða að tæma hugann, eða, sé markmiðið núvitund, að taka eftir umhverfi sínu. Og ef þú ert bóndi knúinn til gegninga, þá er þetta eitthvað sem þú verður að gera, hvort sem þér líkar betur eða verr. Að sinna skepnum er núvitundarnauðsyn þar sem mikilvægt er að hafa öll skilningarvit virk og í lagi. Er nokkuð óvenjulegt að sjá? Er heyið í lagi? Húsin heil? Skepnurnar heilbrigðar? Ekkert má út af bregða og endurtekin iðkun er nausynleg, svo þú takir eftir því hvað breytist á milli daga.

Eða hvað er þægilegra undirspil hugleiðslunnar en gamaldags mjaltahljóð, þar sem taktfastar bunur skella í fötubotn og þegar á líður í síhækkandi yfirborð. Handmjaltir eru víst deyjandi atvinnugrein en ég get sannarlega mælt með þeim. Það er nefnilega þetta samband hugar og handa sem færir okkur nær einhvers konar uppruna og samhengi, sem er svo eftirsóknarvert. Mig langar að nefna nokkur dæmi um ómeðvitaðar núvitundaræfingar sem ég hef lært á störfum mínum við búskap. Þarna er núvitundinni beitt án umhugsunar – sem er kannski einmitt lykillinn að henni. Það skal tekið fram að sögurnar sem hér fara á eftir eru ekki sannar, en líkindi við raunverulegt fólk og annan fénað eru ekki endilega tilviljun.

Fyrsta æfing: Þú ert stödd í skógi. Ekki hávöxnum, greiðfærum útlandaskógi, heldur sjálfsprottnum íslenskum birkiskógi. Hann er þéttur og kræklóttur ofan við hné því enginn fer um hann nema sauðfé, og svo þú og hinir smalarnir, einu sinni á ári. Þér er ætlað að ná fé út úr þessum skógi, en verður augljóslega að treysta á önnur skilningarvit en augun til að koma auga á það. Þú hlustar, bíður og bærist ei, því skammt undan brakar í tré. Þar er kind. Líkur standa til að hún sé svartkollótt, það veistu af fenginni reynslu. Hún stefnir í öfuga átt. Þú þarft að ná henni. Ætlarðu að a) brjótast gegnum ófæran skóginn með höfuðið á undan (gættu þess þá að taka ofan húfuna eða vera með lambhúshettu), b) skríða á fjórum fótum, c) reka upp ramakvein, d) kalla á hjálp, það er, hund í talstöðinni eða f) biðja guð að hjálpa þér. Það síðastnefnda hefur hingað til ekki þótt bera sérstaklega mikinn árangur.

Önnur æfing: Gömul rolla gerir sig líklega til að bera og hefur raunar gert um nokkra hríð, svo mjög að tilefni er til að athuga málið. Þú þurrkar þér um hendurnar á heyvisk og berð á þig burðargel. Fæðingarvegurinn er víður og greinilegt að fyrirstaðan liggur innar. Innan við leghálsinn mætir þér haus, en engar lappir. Þegar innar dregur heilsar þér afturlöpp, sem líklega tilheyrir þá ekki hausnum og enn innar bíður annar haus, líklega sá þriðji í þessu sama legi. Ætlarðu að a) byrja á haus númer eitt og leita að löppum sem fylgja honum, b) finna haus með afturlöppunum, því mesta hættan er á að naflastrengurinn slitni á öfuga lambinu, c) vona að þetta sé hundurinn Serberus og rollan komist frá þessu sjálf eða d) þetta með guð – aftur.

Þriðja æfing: Það er hásumar og þú hefur fengið frí í vinnunni til þess að rympa heyskapnum af. Túnin voru orðin prýðilega sprottin, enda hafðir þú reiknað út áburðarmagn og tíma miðað við sláttutíma, fullkomlega. Auk þess er þurrkur, eins og spáð var. Allir þínir hektarar liggja flatir, brakandi þurrir og tímabært er að taka saman. Í fyrsta hring springur á rakstrarvélinni, enda hefur hún líkt og önnur tæki staðið frá því í fyrra. Fljótlega fer öryggisbolti í bindivélinni, þá bilar sóparinn, aflúrtakið hættir að snúast, merkilegt hvað þessar heyvinnuvélar bila aldrei nema þegar verið er að nota þær. Og svo fer að rigna. Þessari æfingu fylgja engir liðir með valkostum, þarna er einfaldlega ekkert val um annað en að halda sönsum og takast á við aðstæðurnar eins og þær eru, á þess að dæma. Nú eða auðvitað, að tapa sér.

Nú er rétt að taka fram að ég er ekki sérfræðingur í núvitund og mæli ekki endilega með að fólk reyni neitt af þessu æfingum heimafyrir. Ekki nema nauðsyn beri til. Það var, fyrir mig, ákveðinn skellur að átta mig því að það sem ég hafði lengi talið skipulagsleysi og ákvarðanatökufælni fólksins í kringum mig, á sér reyndar rætur í ævarfornri búddískri hugleiðslu. Það er nefnilega ekki alltaf tekið út með sældinni að stunda starf sem stjórnast af veðri og vindum. Þú skipuleggur ekki sumarfrí fyrr en þú veist hverju spáir í næstu viku og stærsti draumur unglings til sveita er að það rigni um Verslunarmannahelgina, því þá verður ekki heyskapur.

Með árunum hefur mér lærst að njóta þess sem augnablikið færir mér. Hvort sem það eru áföll eða sigrar, stórir hlutir eða litlir. Þetta er ekki bara gott fyrir sálina heldur vinnst líka betur í núinu. Nú þætti mér gaman að þykjast hafa dregið þessa ályktun sjálf, með hjálp gáfulegra bókmennta og lestri á heimspeki. En líklega er þó ástæðan einfaldlega sú, að með árunum líkjumst við forfeðrum okkar meir og meir.

Tengdar fréttir

Pistlar

Blessuð sértu sveitin mín