Afturelding á toppinn eftir sigur á Gróttu

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Afturelding á toppinn eftir sigur á Gróttu

01.10.2020 - 21:05
Afturelding er taplaust eftir fyrstu fjóra leiki sína í Olís-deild karla í handbolta. Mosfellingar unnu þriggja marka útisigur á Gróttu í kvöld í leik sem fór 20-17.

Jafnt var á öllum tölum fyrstu 23 mínúturnar, en eftir það náði Afturelding smám saman að bæta við forskot sitt. Grótta var þó aldrei langt undan. Hálfleikstölur voru 10-8 fyrir Aftureldingu sem náði mest fjögurra marka forskoti í leiknum í 20-16.

Bergvin Þór Gíslason og Guðmundur Andri Ólafsson voru markahæstir Mosfellinga með 5 mörk hvor en hjá Gróttu skoruðu Andri Þór Helgason og Hannes Grimm 3 mörk hvor.

Afturelding hefur unnið þrjá leiki og gert eitt jafntefli og hefur því 7 stig og verður á toppi deildarinnar allavega þangað til á morgun. Þá heldur 4. umferðin áfram með þremur leikjum. Selfoss og FH mætast klukkan 19:30 og á sama tíma spila Haukar og Valur og Stjarnan og KA. Haukar geta með sigri á Val farið upp fyrir Aftureldingu á stigum.