Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

„Ætlar sóttvarnalæknir að taka jólin af landsmönnum?“

01.10.2020 - 17:12
Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir að langt sé enn til jóla og óljóst hvernig staðan á kórónuveirufaraldrinum verður þá. Hann segist svo sannarlega vona að hægt verði að halda jólin.

Thor Aspelund líftölfræðingur sagði í viðtali við Kjarnann í dag að núverandi bylgja faraldursins vari líklega í fimm vikur til viðbótar. Hann sagði að það kæmi sér ekki á óvart ef að önnur bylgja tæki við í kjölfarið, möguleika í desember. Skammt er að minnast þess að Englendingar lýstu áhyggjum af jólaboðum ef ekki tækist að hemja kórónuveirufaraldurinn þar í landi.

Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir fréttamaður vísaði til umræðu sem var í Bretlandi fyrir nokkru um að jólin kynnu að vera í hættu ef illa færi og spurði sóttvarnarlækni hvort að fyrirtæki ættu að bíða með að skipuleggja jólaboð starfsfólks.

Þórólfur hóf svar sitt á spurningu og hélt svo áfram: „Ætlar sóttvarnalæknir að taka jólin af landsmönnum? Ég veit ekki hvað verður um jólin. Þau eru dálítið langt í burtu en ég vona svo sannarlega að við getum haldið okkar jól.“

Rætt er betur við Þórólf og Má Kristjánsson, yfirlækni smitsjúkdómalækninga á Landspítala, um COVID-19 faraldurinn í kvöldfréttum sjónvarps.