Heimahjúkrun ein forsenda þess að fólk búi lengur heima

Mynd með færslu
 Mynd: ?? - ruv.is
Heimahjúkrun er ein forsenda þess stefnumiðs íslenskra stjórnvalda að fólki verði gert mögulegt að búa sem lengst á eigin heimili þótt aldurinn færist yfir.

Þetta kemur fram í skýrslu félags- og barnamálaráðherra sem gerð var að beiðni nokkurra þingmanna. Áður hafði komið fram í svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn á Alþingi að heimahjúkrun væri forsenda þess að öldruðu fólki yrði þetta mögulegt.

Mikilvægt er talið að fólk geti búið sem lengst á eigin heimili. Ætlunin er að á Íslandi verði öldruðum gert kleift að búa sem lengst utan stofnana, með stuðningi frá ríki og sveitarfélögum.

Heimaþjónusta hefur verið veitt af hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum en jafnframt segir í skýrslunni að unnið sé að því að hægt verði að bjóða upp á sérhæfðari heimahjúkrun í stærri sveitarfélögum og byggðakjörnum.

Þjónustu af því tagi annist sérhæfðir hjúkrunarfræðingar, til að mynda á sviði líknar- og lífslokameðferðar. Svipað sé uppi á teningnum á hinum Norðurlöndunum, með ýmsum útfærslum þó.

Að því er fram kemur í skýrslu ráðherrans er hugmyndin að rjúfa einangrun þess fólks sem þarf á stuðningi við athafnir almenns lífs að halda, gefa langveiku fólki kost á að búa lengur á eigin heimili og auka hæfni þess til að bjarga sér sjálft í hversdagslífinu.

Þar segir jafnframt að sveitarfélög skuli veita eldri borgurum þjónustu sem búi á eigin heimili og þurfi aðstoð vegna fjölskylduaðstæðna, álags, veikinda eða fötlunar. Sveitarfélögin hafi þó heimild til að taka greiðslu fyrir þá þjónustu sína.

markusthth's picture
Markús Þ. Þórhallsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi