Ætla að berjast fyrir sneiðmyndatæki á Egilsstöðum

30.09.2020 - 20:49
Egilsstaðir, Fljótsdalshérað. Mynd tekin í júlí 2013. Mynd: Rúnar Snær Reynisson
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur hafa myndað meirihluta í nýju sameinuðu sveitarfélagi á Austurlandi og undirrituðu málefnasamning í dag. Framboðin eru sammála um að nýja sveitarfélagið skuli heita Múlaþing.

Samningurinn var kynntur og undirritaður á rafrænum fjarfundi. Þar kemur fram að Birni Ingimarssyni, bæjarstjóra Fljótsdalshéraðs, verði boðið að verða bæjarstjóri í nýju sveitarfélagi.

Tryggja börnum í dreifbýli aðgang að tómstundastarfi

Ýmsar áskoranir eru í þessu víðfeðmasta sveitarfélagi landsins. „Okkur finnst skipta máli að krökkum í dreifbýli og í sveitunum standi til boða sama þjónusta varðandi tómstundir og íþróttir og öðrum krökkum og ætlum að reyna að leggja okkur fram við það. Það væri auðvitað best gert með því að samræma stundaskrár hjá íþróttafélögunum og skólunum með það fyrir augum að samnýta skólabílana til dæmis,“ segir Gauti Jóhannesson, oddviti Sjálfstæðisflokks.

Sneiðmyndatæki gæti stytt sjúkraflutninga

Í málefnasamningnum kemur fram að fundinn verði staður fyrir nýjan leikskóla á Egilsstöðum og þar eru líka tíunduð ýmis baráttumál sem beint verður að stjórnvöldum. „Í aðdraganda kosninganna þá kynntum við það baráttumál að við viljum koma upp bráðagreiningu á Egilsstöðum með það fyrir augum að fólk sem þurfi á slíkri greiningu að halda geti fengið hana þar og komist þá fyrr í sjúkraflug suður til Reykjavíkur ef þess er þörf. Þegar svo stendur á geta mínútur skipt máli,“ segir Gauti. Kaupa þyrfti 70 milljóna króna sneiðmyndatæki og ráða starfsmann til að vinna á tækið. Aðspurður um hvort með þessu yrði heilsugæslustöðin á Egilsstöðum komin í einskonar samkeppni við Umdæmissjúkrahús Austurlands í Neskaupstað, segir Gauti: „Ekki á nokkurn hátt. Ef það kemur út úr sneiðmyndatækinu að viðkomandi þurfi ekki að fara í sjúkraflug þá er sjálfsagt að flytja sjúklinginn niður á Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað.“ 

Stærsta verkefnið er að takast á við tekjusamdrátt. Það léttir undir með nýju sveitarfélagi að fá um 1270 milljónir frá jöfnunarsjóði vegna sameiningarinnar á 5 árum þar af um 700 milljónir til skuldalækkunar.

Aukin samvinna við minnihluta með sérstökum dagskrárfundum

„Staða sveitarfélaganna er önnur en menn gerðu ráð fyrir og lögðu upp með og það er meðal annars eitt af því sem þarf að greina nú í aðdraganda vinnu við fjárhagsáætlun. Við munum leggja áherslu á mikið og gott samstarf við minnihlutann. Við erum að stefna að því að hafa dagskrárfundi í aðdraganda hvers sveitarstjórnarfundar þannig að minnihlutinn hafi aðgang að gerð dagskrárinnar. Og munum eins og kemur reyndar fram í málefnasamningnum leggja áherslu á gott samstarf við minnihlutann,“ segir Gauti.

Nýja sveitarfélagið verður formlega til sunnudaginn 4. október og tekur til starfa daginn eftir.

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi