Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Vínhéruð Kaliforníu eldi að bráð

29.09.2020 - 01:54
epa08704833 A vineyard is seen as the Glass Fire burns in the mountains above the town of Calistoga in Napa County, California, USA, 28 September 2020. Northern California is under extreme fire alert.  EPA-EFE/JOHN G. MABANGLO
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Tugþúsundir urðu að flýja heimili sín þegar gróðureldar læstu sig í Napa- og Sonoma-dölunum í Kaliforníu í gær. Dalirnir eru þekktir fyrir gjöful vínhéruð, sem nú eru að mestu rjúkandi rústir. Eldurinn breiddist hratt út yfir 4.500 hektara og ráða slökkviliðsmenn lítt við sökum hvassviðris, hita og mikilla þurrka. 

Nokkrir mánuðir eru síðan fyrstu gróðureldarnir kviknuðu í Kaliforníu þetta árið. Ríkisstjórinn Gavin Newsom segir gróðureldatímabilið í hámarki um þessar mundir. Kröftugir vindar blása nú til suðurs, í átt að Los Angeles, þar sem búist er við hitabylgju á næstunni.

Ekki einfaldar það hlutina að reyna að koma tugþúsundum í skjól á tímum kórónuveirufaraldurs. Hótel og háskólar hafa verið notaðir til þess að hýsa fólk sem verður að flýja heimili sín vegna eldanna.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV