Njálurefillinn tilbúinn þremur árum á undan áætlun

Mynd: Steinunn Ósk Kolbeinsdóttir / RÚV

Njálurefillinn tilbúinn þremur árum á undan áætlun

29.09.2020 - 16:25

Höfundar

Síðustu saumsporin hafa verið tekin í Njálurefilinn, en verkinu lauk nú í september, þó nokkuð á undan áætlun. Refillinn bíður nú upprúllaður eftir að eignast varanlegt heimili.

Njálurefillinn er 90 metra langt veggteppi með útsaumi sem segir einfaldaða útgáfu af Brennu-Njálssögu. Það voru þær Gunnhildur Edda Kristjánsdóttir Kristína Bengtsson sem hafa haft veg og vanda af því að sauma refilinn. „Listakonan sem teiknaði myndirnar heitir Kristín Ragna Gunnarsdóttir, algjörlega rétta manneskjan í verkið. Þetta átti bara að verða, allt gekk svo vel upp,“ segir Gunnhildur Edda í samtali við Morgunútvarpið. Þær byrjuðu að sauma 2. febrúar 2013 og reiknuðu með að vera tíu ár að ljúka við hann, eða jafnvel lengur. „En þetta tók okkur sjö ár og sjö mánuði. Þetta er bara búið að vera svo gaman og ganga vel.“

Hinir og þessir hafa hjálpað þeim stöllum við útsauminn á þessum sjö árum. „Við héldum svona saumadagbók. Það á reyndar eftir að binda hana inn, en það er búið að sauma í 12.500 skipti, við skrifuðum alltaf í hvert skipti, dagsetningu, hverjar saumuðu og hvað var saumað.“ Líklega hafi þetta verið um 30 konur sem voru atkvæðamestar í útsauminum á þessum sjö árum. Nú er leitað að heppilegum framtíðardvalarstað fyrir refilinn en fyrir um mánuði síðan veitti ríkisstjórnin 25 milljón króna styrk til að hægt væri að koma honum fyrir í varanlegu sýningarhúsnæði í Rangárþingi eystra. „Þetta skýrist á næstu vikum. En ég vona að þetta þróist þannig að við getum opnað sýningu næsta vor.“ 

Hulda Geirsdóttir ræddi við Gunnhildi Eddu Kristjánsdóttur í Morgunútvarpinu.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

25 milljónum veitt í að varðveita Njálurefilinn

Rangárþing eystra

Njálurefillinn hálfnaður

Menningarefni

Forn útsaumsaðferð sameinar konur

Mannlíf

Pólfarinn tók fyrsta sporið