Kynnir átta aðgerðir sem geta numið 25 milljörðum

29.09.2020 - 11:30
Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, kynnti nú á tólfta tímanum átta aðgerðir á vegum stjórnvalda til að tryggja frið á vinnumarkaði. Heildarupphæð aðgerðanna geta numið 25 milljörðum. Forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins hafa talið forsendur lífskjarasamningsins brostnar en ASÍ ekki.

Meðal þess sem ríkisstjórnin ætlar að gera er að full endurgreiðsla virðisaukaskatts í tengslum við við verkefnið Allir vinna verður framlengd til út næsta ár. Reyna á að milda áhrifin af launahækkunum í tengslum við lífskjarasamninginn með því að lækka tryggingagjaldið. 

Þá verður unnin úrræði til að koma til móts við rekstraraðila vegna COVID-19 og sjá til þess að þeir geti viðhaldið ákveðinni lágmarksstarfsemi og spyrnt við þegar fer að sjá til landsins. Meðal þess eru beinir styrkir til að fyrirtæki geti haldið úti lágmarksstarfsemi og geta slíkir styrkir numið allt að sex milljónum.

Þá eru lagðar til skattaívilnanir þar sem áhersla verður lögð á grænar fjárfestingar til að draga úr kolefnisfótspori og losun gróðurhúsloftegunda, framlög til nýsköpunarmála verða hækkuð. Úrbætur á skipulags-og byggingamálum, umbætur á lífeyriskerfinu og á vinnumarkaði

Katrín sagði í samtali við RÚV eftir fundinn að hún vonaðist til að þetta nægði til að tryggja frið á vinnumarkaði. Hún boðaði jafnframt að á komandi haustþingi yrðu lögð fram frumvörp sem styðja við lífskjarasamninginn. Þetta eru meðal annars frumvörp sem eiga að styja við leigjendur, sporna gegn kennitöluflakki og draga úr vægi verðtryggingarinnar.

Katrín sagði ríkisstjórnina hafa fundað með bæði ASÍ og SA. Þá hefði hún fundað með SA og síðan hefði hún sjálf átt fund með forseta ASÍ.  Hún sagði ríkisstjórnina nú þegar hafa lögfest margar aðgerðir til að verja bæði atvinnulíf og menningu. Stjórnin hefði sýnt sveigjanleika og brugðist við þar sem eldarnir brenna.

Mynd: Eggert Þór Jónsson / RÚV
freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi