Jón Björn nýr bæjarstjóri - Karl Óttar fær biðlaun

29.09.2020 - 12:51
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd - RÚV
Bæjarstjóri Fjarðabyggðar sem hætti skyndilega í gær á rétt á þriggja mánaða biðlaunum; um sex milljónum króna. Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar og oddviti framsóknar, verður bæjarstjóri út kjörtímabilið. Hann segir ekki svigrúm til að auglýsa stöðuna enda tæp tvö ár eftir af kjörtímabilinu.

„Við höfum átt mjög gott samstarf í meirihluta framsóknar og Fjarðalista og settumst bara niður með þessa stöðu sem var komin upp. Og eins og kemur fram er kjörtímabilið rúmlega hálfnað og við viljum líka halda í samfellu í rekstri á tímum eins og þessum. Ég hef mikla reynslu og hef verið lengi bæði bæjarfulltrúi og nefndarmaður og hef líka verið starfsmaður sveitarfélagsins áður. Þannig að það var okkar sameiginlega niðurstaða að við myndum skipta með okkur verkum með þessum hætti og allir sáttir við það í báðum flokkum,“ sagði Jón Björn í morgun. Hann var forseti bæjarstjórnar en Eydís Ásbjörnsdóttir, oddviti Fjarðalistans, tekur við því embætti.

Fær biðlaun í þrjá mánuði

Jón Björn segir að Karl Óttar eigi rétt á biðlaunum, samkvæmt ráðningarsamningi. „Það er ekki búið að taka það saman en það eru þá hans laun næstu þrjá mánuðina og svo uppfjör á orlofsdögum. Það er verið að ganga frá því uppgjöri.“ Fram kom í úttekt Frjálsrar verslunar í fyrra að laun bæjarstjóra Fjarðabyggðar væru tæpar tvær milljónir á mánuði.

Ósamstíga um hvernig ætti að leysa vanda

Fáir vilja tjá sig um ástæður þess að Karl Óttar hætti. Það var að hans frumkvæði en eftir því sem fréttastofa kemst næst hefur verið samskiptavandi á bæjarskrifstofum Fjarðabyggðar á milli undirmanna bæjarstjóra þar sem verkaskipting var óljós. Bæjarstjórinn og bæjarfulltrúar voru ekki samstíga um hvað gera skyldi sem leiddi til þess að hann hætti.

„Erum með gott starfsfólk“

Jón Björn vill ekki tjá sig um þau mál en segir mikil verkefni fram undan, ekki síst gerð fjárhagsáætlunar þar sem tekjur dragast saman vegna COVID-19. „Það mun ekki skorta verkefni á næstunni en þau eru öll eitthvað sem maður gengur að af krafti og í góðri samvinnu. Við erum heppin, við erum með gott starfsfólk á öllum stigum í Fjarðabyggð, hvort sem það er í yfirstjórn eða í stofnunum og ég hef enga trú að öðru en við náum að sigla okkur í gegnum þau öll,“ segir Jón Björn Hákonarson, nýr bæjarstjóri í Fjarðabyggð.

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi