Breiðablik kærir úrskurð KKÍ

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Breiðablik kærir úrskurð KKÍ

29.09.2020 - 20:29
Breiðablik ætlar að kæra úrskurð aganefndar körfuknattleikssambandsins sem ógilti í dag úrslit í sigurleik Blika gegn Val í fyrstu umferð Dominosdeildar kvenna í síðustu viku. Breiðablik vann leikinn 71-67 en KKÍ dæmdi Val 20-0 sigur og sektaði Blika um 250.000 krónur á þeim forsendum að Blikar hefðu teflt fram leikmanni í leikbanni.

Staðan sem er uppi á sér engin fordæmi og ætla Blikar að láta á það reyna hvort reglur KKÍ séu nógu skýrar hvað þetta varðar.

„Þetta er prófraun á reglurnar því þetta hefur aldrei gerst áður, að tímabilinu sé bara slitið og leikmaður geti því ekki tekið út bannið gegn því liði sem til stóð,“ segir Ívar Ásgrímsson, þjálfari Breiðabliks í viðtali við Vísi.

Leikmaðurinn sem um ræðir er Fanney Lind Thomas og var hún dæmd í leikbann þann 11. mars en keppnistímabilinu var aflýst vegna kórónuveirufaraldursins skömmu síðar. Ekkert varð því af næsta leik sem Fanney hefði átt að taka leikbannið út í.

Lögfræðingar segja úrskurð KKÍ ekki standast

Í reglum KKÍ segir: „Ef leikmaður á eftir að taka út agaviðurlög þegar keppnistímabili lýkur, skal það gert í byrjun næsta keppnistímabils viðkomandi leikmanns.“ 

Miðað við þessa reglu eina og sér hefði Fanney sannarlega verið ólölegur leikmaður gegn Val en Breiðablik bendir hins vegar á aðra reglu hjá KKÍ.

Frestist leikur, sem afplána skal refsingu í, skal afplánun frestast uns leikurinn fer fram.“ Þessa reglu túlka Blikar á þann hátt að fyrirhuguðum leik hafi verið aflýst, rétt eins og öllu keppnistímabilinu, og því hefði jafnframt átt að ógilda bannið.

„Við látum dómstólinn um þetta og þá lögfræðinga sem eru að vinna þetta fyrir okkur. Þeir segja að þetta standist ekki," sagði Ívar.

Tengdar fréttir

Körfubolti

Unnu meistarana en úrslitum nú breytt í tap og fjársekt