Helmingi skurðstofa lokað vegna smits

Mynd: Kveikur / Freyr Arnarson
Ákveðið var í dag að loka fjórum af átta skurðstofum á Landspítala Fossvogi vegna þess hversu margt starfsfólk þar er smitað. Skurðaðgerðum, sem ekki eru bráðar, verður frestað.

37 starfsmenn Landspítala eru með COVID-19. Fjöldi smita meðal starfsfólks hefur einu sinni farið hærra en það. Það var 29. mars þegar 38 voru smitaðir. 26. mars voru líka 37 smitaðir. Smituðu starfsmennirnir skiptast í þrjá álíka stóra hópa, að sögn Hlífar Steingrímsdóttur framkvæmdastjóra aðgerðasviðs Landspítala. „Það er skrifstofuhópur og iðnaðaðarmenn og svo er þetta í skurðþjónustunni; þeir sem eru klínískir starfsmenn og eru smitaðir,“ segir Hlíf.

Smitum hefur smám saman verið að fjölga. Í síðustu viku var til dæmis 86 aðgerðum frestað en þá var göngudeild skurðlækninga og dagdeild í Fossvogi lokað um tíma. 

„Núna hefur þetta mest áhrif í Fossvoginum og þar tókum við ákvörðun í dag um að draga enn frekar úr prógramminu og loka fjórum skurðstofum af átta,“ segir Hlíf. „Og það er þá gert til að vernda gjörgæslurnar og líka til þess að styrkja mönnun á COVID-legudeildinni og COVID-göngudeild svona til þess að geta flutt til starfsfólk ef á þarf að halda.“

Hlíf segir allar nauðsynlegar aðgerðir gerðar. „En við erum þó að fresta þeim aðgerðum sem eru ekki bráðar, en eru auðvitað nauðsynlegar en geta beðið.

177 starfsmenn eru núna í sóttkví. Svo heppilega vill til að nú þegar ástandið er svona í Fossvogi þá var hópur starfsmanna á skurðsviði á Hringbraut að koma til baka til vinnu úr sóttkví. Á milli 150 til 170 starfsmenn sem tengjast aðgerðasviðinu voru kallaðir í sýnatöku í gær, einn þeirra var með smit. 

„Það er mjög líklegt að það hafi einmitt smitast á milli starfsmanna,“ segir Hlíf. „En við höfum ekki vitneskju um að starfsmenn hafi smitast af sjúklingum eða sjúklingar af starfsmönnum.“

Hlíf segist gera ráð fyrir að færri aðgerðir verði gerðar á Landspítala í Fossvogi næstu tvær vikur. „Næstu viku að minnsta kosti. Svo sjáum við bara hvernig þessi kúfur vonandi gengur yfir.“

Starfsfólk Sjúkrahússins á Akureyri má nú ekki fara til höfuðborgarsvæðisins, sem núna er skilgreint sem rautt svæði, nema brýna nauðsyn beri til. Þetta sagði Hildigunnur Svavarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar á sjúkrahúsinu. Nokkrir starfsmenn sjúkrahússins eru nú í sóttkví eftir að smitaður einstaklingur kom inn á sjúkrahúsið á viðburð sem þar var haldinn fyrir starfsmenn. 

Þurfi starfsfólk sjúkrahússins að fara til höfuðborgarsvæðisins ber því að fara í svokallaða sóttkví C og þarf þá að bera grímu í tvær vikur eftir að það mætir aftur til starfa og gæta tveggja metra reglunnar. 

Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi