Yngsti stýrimaðurinn í sögu Landhelgisgæslunnar

27.09.2020 - 20:15
Mynd: Jóhannes Jónsson / RÚV/Landinn
„Það er varla hægt að lýsa þessari tilfinningu að standa hérna í brúnni, þetta er virðulegt skip og með mikla sögu þannig að þetta er svolítið yfirþyrmandi,“ segir Einar Bergmann Daðason, þriðji stýrimaður á varðskipinu Tý. Einar er yngsti stýrimaður Landhelgisgæslunnar frá upphafi, aðeins átján ára gamall. 

Var að útskrifast úr Stýrimannaskólanum

„Ég fór í Stýrimannaskólann um leið og ég gat og var að útskrifast þaðan. Landhelgisgæslan hefur alltaf heillað mann, þessi skip, það er alltaf eitthvað svona mikilfenglegt við þau. Ég hafði þess vegna samband við þau hjá gæslunni og athugaði hvort þau vantaði mann. Ég fór í túr sem háseti og síðan vantaði stýrimann og þá stökk ég á það,“ segir Einar Bergmann.

Núverandi skipherra var áður yngsti stýrimaðurinn

Einar Valsson skipherra var lengi sá yngsti sem gengt hafði stöðu stýrimanns hjá Gæslunni en hann byrjaði tvítugur. „Það er bara mjög gaman að fá svona ungan mann í þetta starf og tali nú ekki um ef hann ílengist hjá okkur að fá tækifæri til að móta svona mann í þessari starfsemi því þessi sjómennska sem við erum að stunda hún er svo gjörólík allri annarri sjómennsku,“ segir skipherrann. 

Langar að skoða heiminn

Stýrimaðurinn ungi er hinsvegar ákveðinn í því að sigla á fleiri höfum en Atlantshafinu. „Þetta eru alþjóðleg réttindi og mig langar til að nota þau til að skoða heiminn í framtíðinni. Ég hef líka tímann fyrir mér,“ segir Einar Bergmann.  

gislie's picture
Gísli Einarsson
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi