Víti og tvö rauð spjöld í Vesturbænum

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Víti og tvö rauð spjöld í Vesturbænum

27.09.2020 - 16:46
Þremur leikjum er nú lokið í efstu deild karla í fótbolta í dag. Mesta dramatíkin var á heimavelli KR-inga þar sem Sam Hewson tryggði Fylki sigur með marki á lokasekúndum leiksins. FH-ingar sigruðu Fjölni í Kaplakrika og ÍA og Víkingur R. gerðu jafntefli í fjögurra marka leik.

KR og Fylkir eru í hörkubaráttu, ásamt fleiri liðum, um Evrópusæti fyrir næstu leiktíð og því til mikils að vinna hjá báðum liðum í dag. Mikið hefur rignt í höfuðborginni að undanförnu og af þeim sökum hefur KR-völlurinn oft litið betur út en í dag, en völlurinn var gjörsamlega á floti sem setti mark sitt á leikinn. Bæði lið áttu álitlegar sóknir í byrjun leiks en það voru gestirnir sem skoruðu fyrsta markið. Orri Hrafn Kjartansson renndi boltanum þá í netið eftir frábæra stungusendingu frá Ragnari Braga. Vel gert hjá þessum unga leikmanni sem var að skora sitt fyrsta mark í efstu deild. Hvorugu liðinu tókst að bæta marki við fyrir hálfleik og staðan því 0 - 1 í hálfleiknum. 

Þjálfarateymi KR ákvað að bæta í sóknarleikinn og Óskar Örn Hauksson kom inn á fyrir Finn Tómas Pálmason í hálfleik. Það tók Óskar Örn aðeins þrjár mínútur að setja mark sitt á leikinn en hann skoraði jöfnunarmark KR á 48. mínútu. KR sótti meira á næstu mínútum og staða Fylkis versnaði talsvert þegar að hálftími var til leiksloka. Kristinn Jónsson átti þá góðan sprett upp kantinn þar sem Ragnar Bragi mætti honum með tveggja fóta tæklingu. Ívar Orri Kristjánsson, dómari leiksins, gaf Ragnari Braga umsvifalaust rautt spjald fyrir brotið og Fylkismenn því einum færri. KR fékk nokkur dauðafæri í kjölfarið sem þeir náðu ekki að nýta sér. 

Dramatíkin náði hámarki á 94. mínútu þegar að brot var dæmt á Beiti Ólafsson, markvörð KR, þegar að boltinn var víðsfjarri. Beitir var þá að rífast við Ólaf Inga Skúlason og gaf honum olnbogaskot í andlitið í þann mund sem Ólafur Ingi var að hlaupa framhjá honum. Beitir fékk að líta rauða spjaldið auk þess sem Fylkir fékk víti. Sam Hewson fór á punktinn og skoraði framhjá Guðjóni Orri sem fór í mark KR. Var þetta sigurmark leiksins og Fylkir því í góðri stöðu í þriðja sæti deildarinnar. 

Danskur sigur í Hafnarfirði

Í Kaplakrika tóku heimamenn í FH á móti Fjölni. Staða liðanna í deildinni er ólík, FH er í öðru sæti á meðan að Fjölnir vermir botnsætið. Leikurinn fór rólega af stað og hvorugt lið náði að skapa sér alvöru færi framan af leik. Í seinni hálfleik reyndu FH-ingar að færa sig framar á völlinn en Fjölnisliðið var vel skipulagt og gaf fá færi á sér. Bæði lið áttu skot í tréverkið um miðjan hálfleikinn en allt stefndi í markalaust jafntefli þegar að Morten Beck Anderson kom FH yfir eftir klafs í vítateig Fjölnismanna eftir hornspyrnu. 

FH er því áfram í öðru sæti deildarinnar en ekkert nema fall blasir við Fjölni sem er nú tíu stigum frá öruggi sæti í deildinni og enn án sigurs. 

Fjögur mörk á Akranesi

ÍA og Víkingur R. áttust við á Akranesi í dag og fyrir leik var ljóst að vandasamt verk biði Arnars Gunnlaugassonar, þjálfara Víkings, að stilla upp byrjunarliði í dag en marga leikmenn vantaði í liðið vegna meiðsla og leikbanna. Fátt markvert gerðist í fyrri hálfleik og var staðan markalaus þegar að liðin héldu til búningsklefa. Í seinni hálfleik færðist hinsvegar fjör í leikanna. Tryggvi Hrafn Haraldsson kom heimamönnum yfir á 51. mínútu þvert gegn gangi leiksins. Aðeins tveimur mínútum síðar jöfnuðu gestirnir með marki Ágústs Eðvalds Hlynssonar. Þremur mínútum efti rmark Ágústs, eða á 56. mínútu skoraði Halldór Jón Sigurður Þórðarson fyrir Víking eftir hornspyrnu og staðan því orðin 1 - 2. Forysta Víkings entist þó ekki lengi því Skagamenn fengu dæmt víti á 65. mínútu sem Tryggvi Hrafn skoraði úr. 

Lokatölur urðu því 2 - 2 en öll mörk leiksins komu á 14 mínútna kafla í seinni hálfleik.