Tvö rauð spjöld og dramatík í lokin

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Tvö rauð spjöld og dramatík í lokin

27.09.2020 - 22:04
Tveir leikir fóru fram í Pepsi Max deild karla í kvöld. Í báðum leikjum var boðið upp á dramatík á lokamínútum leiksins.

Efsta lið deildarinnar tók á móti Breiðablik í kvöld en með sigri hefðu Valsmenn sett níunda fingurinn á Íslandsmeistaratitilinn á meðan að Breiðablik stefnir enn á að ná evrópusæti. Fyrri hálfleikur var afar tíðindalítill og bæði lið spiluðu nokkuð varfærnislega. Seinni hálfleikur fór einnig rólega af stað en svo sauð upp úr á 60. mínútu. Davíð Ingvarsson missti þá boltann aðeins of langt frá sér og fleygði sér á eftir boltanum og straujaði Hauk Pál niður. Leikmenn Vals hópuðust að Davíð sem fékk umsvifalaust beint rautt spjald frá dómara leiksins. Í látunum í kringum spjaldið fékk Valgeir Lunddal einnig gult spjald.

Gula spjaldið á Valgeir reyndist dýrkeypt en tveimur mínútum síðar braut hann á Brynjólfi Willumssyni sem hafði þá farið illa með hann. Fékk Valgeir þá sitt annað gula spjald og þar með rautt. Því var aftur orðið jafnt í liðunum. Skömmu síðar átti Thomas Mikkelsen frábært skot fyrir utan teig sem stefndi í samskeytin en Hannes Þór Halldórs sýndi þá heimsklassa takta í marki Vals og varði í horn. 

Á 76. mínútu náðu Blikar að brjóta ísinn. Höskuldur Gunnlaugsson fór þá illa með Kaj Leó og átti frábæra fyrirgjöf sem fór yfir allan pakkann og að fjærstöng þar sem Róbert Orri Þorkelsson lúrði aleinn. Hann átti ekki í vandræðum með að skora og kom Breiðablik yfir. Þegar komið var að uppbótartíma náði svo Valur að jafna. Birkir Heimisson fékk þá boltann eftir innkast og átti frábæra sendingu bakvið vörn Breiðabliks þar sem Birkir Már kom á ferðinni, stakk sér bakvið vörnina og sendi boltann framhjá Antoni Ara og í netið. Fjórða mark Birkis í síðustu þremur leikjum. Leikmenn Breiðabliks mótmæltu af krafti en áður en innkastið var tekið hafði línuvörðurinn flaggað rangstöðu sem dómari leiksins ákvað að hunsa. 

Leiknum lauk því með 1 - 1 jafntefli og er Valur enn á toppi deildarinnar með 41 stig, níu stigum á undan FH sem er í öðru sæti en FH hefur leikið einum leik minna en Valur. Breiðablik er í fjórða sæti deildarinnar með 27 stig en Breiðablik hefur eins og FH aðeins leikið 16 leiki og eiga því einn leiki inni á bæði Val og Fylki.

Hilmar Árni hetja Stjörnunnar

Í Kórnum tók HK á móti Stjörnunni og það voru gestirnir sem byrjuðu mun betur. Á 40. mínútu skoraði Jósef Kristinn Jósefsson eftir frábæra fyrirgjöf frá Hilmari Árna Halldórssyni. Aðeins örfáum sekúndum síðar skoraði Guðjón Pétur Lýðsson annað mark Stjörnunnar og þeir fóru því með 2 - 0 forystu inn í hálfleikinn.

Athygli vakti að báðum markaskorurum Stjörnunnar var skipt útaf í hálfleik. Seinni hálfleikurinn var rúmlega fimm mínútna gamall þegar Hörður Árnason minnkaði muninn fyrir HK með skalla eftir hornspyrnu. Þegar að tæplega 20 mínútur voru eftir af leiknum fengu HK-ingar aðra hornspyrnu og aftur kom mark upp úr spyrnunni, nú var það Guðmundur Þór Júlíusson sem skoraði. Bæði lið fengu afbragðsfæri til að skora sigurmarkið. Stjörnumenn voru í vandræðum með að verjast hornspyrnum HK-inga á og Sölvi Snær átti svo gott skot að marki HK sem þeir björguðu á línu.

Þegar að allt stefndi í jafntefli náði Hilmar Árni Halldórsson að tryggja Stjörnunni sigur með fínu skoti fyrir utan teig. Markið kom á 86. mínútu. Stjarnan er í fimmta sæti eftir leikinn með 27 stig en liðið hefur leikið 15 leiki og á því einn til tvo leiki á flest önnur lið deildarinnar. HK er hinsvegar í níunda sæti með 19 stig eftir 17 leiki.