Trump krefst þess að Biden fari í lyfjapróf

27.09.2020 - 14:51
Mynd með færslu
 Mynd: RUV
Donald Trump Bandaríkjaforseti fór fram á það að mótframbjóðandi hans til embættisins, demókratinn Joe Biden fari í lyfjapróf öðru hvoru megin við þriðjudaginn næsta, þegar þeir mætast í fyrstu kappræðunum fyrir forsetakosningar sem fara fram í nóvember.

Í aðdraganda kappræðna forsetaframbjóðendanna tveggja í Bandaríkjunum krafðist Trump þess í færslu á Twitter að hinn "syfjaði Joe Biden" fari í lyfjapróf. Forsetinn sagðist sjálfur einnig vera fús til að fara í lyfjapróf. Að hans sögn hljóti Biden að vera undir áhrifum lyfja, án þess að rökstyðja það frekar.

Aðstandendur framboðanna leggja nú lokahönd á undirbúning kappræðnanna sem fara fram í Cleveland í Ohio ríki, undir handleiðslu Chris Wallace, fjölmiðlamanns á FOX sjónvarpsstöðinni. Þær eru þær fyrstu af þremur í aðdraganda kosninganna þar sem frambjóðendurnir mætast augliti til auglitis.  Kappræðurnar verða eins og margt annað óhefðbundnar þar sem fjöldi áhorfenda í sal verður takmarkaður.

Undanfarið hefur forsetinn gert því í skóna að andleg heilsa Biden sé ekki góð og hefur ýjað að því að Biden noti ótilgreind lyf til að bæta frammistöðu sína í kosningabaráttunni. Biden hefur vísað þessum ásökunum forsetans á bug. Biden býst við því að í kappræðunum á þriðjudag muni forsetinn bera á borð persónulegar árásir og lygar í sinn garð, og líkti hann Trump við áróðursmálaráðherra Þýskalands nasismans, Joseph Goebbels.
 

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi