Trump greiddi 750 dali í tekjuskatt 2016

epa08702695 US President Donald J. Trump holds a news briefing at the White House in Washington, DC, USA, 27 September 2020.  EPA-EFE/Chris Kleponis / POOL
 Mynd: EPA-EFE - Polaris Images POOL
Donald Trump greiddi aðeins 750 bandaríkjadali í tekjuskatt árið 2016, þegar hann var kjörinn forseti. Það er jafnvirði um 105 þúsund króna. Þetta kemur fram á vef New York Times í dag, samkvæmt skattskýrslum forsetans sem spanna síðustu tuttugu ár. Síðustu fimmtán árin fram að forsetakosningunum greiddi Trump engan tekjuskatt tíu þeirra, þar sem fjárhagur hans var skráður í tapi þau ár. 

Upplýsingar um skattgreiðslur Trump, eða skortur á þeim, voru meðal helstu umræðuvinkla fyrir síðustu forsetakosningar. Trump rauf þar áratugalanga hefð, en síðan Richard Nixon birti skattaupplýsingar sínar hafa allir forsetar gert það, utan Trump. Enn segir hann ríkisskattstjóra í Bandaríkjunum vera með skattayfirlit hans í endurskoðun, og sagði hann á blaðamannafundi í kvöld að frétt New York Times væri falsfrétt.

Úr milljónum í 750 dali

Í grein New York Times segir að miðað við tekjur Trumps árin 2016 og 2017 hafi hann átt að greiða um eina milljón bandaríkjadala árið 2016 og 4,2 milljónir 2017. Bæði árin bað hann um frest á skattskilum. Hann taldi þá fram 9,7 milljónir dala fram, sem hann hafði notað til þess að fjárfesta í eignum sínum. Hluti þess fór í endurbætur á gamla pósthúsinu í Washington, sem hann gerði að Trump hóteli. Þó það hefði dugað til þess að hann greiddi enga skatta bæði árin, varð endanleg greiðsla Trumps 750 dalir bæði árin.

Hárgreiðslan afskrifuð

Heimili hans á Mar-a-Lago, sem er einnig golfklúbbur, hefur nýst forsetanum vel til afskrifta. Yfir 100 þúsund dala kaup á nýju líni og silfurborðbúnaði voru afskrifuð árið 2017, og nærri 200 þúsund dalir vegna garðyrkjustarfa. Eins voru störf ljósmyndara dregin frá sem kostnaður, alls 210 þúsund dalir. Óaðfinnanleg hárgreiðsla forsetans er ekki ókeypis, en nýtist honum til skattafrádráttar. Alls gerði hann grein fyrir 70 þúsund dala kostnaði vegna hárgreiðslu á árunum sem hann stjórnaði The Apprentice. Þá hafa níu fyrirtæki í eigu Trump afskrifað samanlagt nærri 100 þúsund dali í kostnað fyrir hár og förðun Ivanka Trump, dóttur forsetans.

Styttist í skuldadaga hárra lána

Þá virðist sem bráðlega sé komið að skuldadögum hjá Trump. Samkvæmt gögnunum tók Turmp 100 milljón dala lán með veði í auglýsingapláss á Trump turninum í New York árið 2012. Hingað til hefur fyrirtæki hans greitt 15 milljónir dala í vexti af láninu, en ekkert af höfuðstólnum. Síðasti gjalddagi lánsins er árið 2022. Árið 2013 tók hann út 95,8 milljónir dala út úr samstarfi sínu við fyrirtæki sem rekur einn skrifstofuturna hans. Ári síðar seldi hann verð- og skuldabréf fyrir 98 milljónir, árið 2015 seldi hann fyrir 54 milljónir og 68,2 milljónir árið 2016. Samkvæmt fjármálayfirliti hans er verðmæti verð- og skuldabréfa hans nú innan við milljón dala. Þá var haldbært fé fyrirtækja í eigu Trumps 34,7 milljónir árið 2018, 40% minna en árið áður.

Persónuleg ábyrgð Trumps

Skattskýrslur hans sýna svo að Trump er sjálfur persónulega ábyrgur fyrir lánum að verðmæti hundruði milljóna dala. Hann gerði slíkt hið sama snemma á tíunda áratugnum og segist alltaf hafa séð eftir því. Þá hótuðu lánadrottnar hans að þröngva honum í gjaldþrot. Lánin sem hann er sjálfur ábyrgðamaður fyrir nema 421 milljón bandaríkjadala. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi