Samkynhneigðir unglingar vilja flytja búferlum

27.09.2020 - 10:05
Mynd með færslu
 Mynd: Rúv
Í nýrri rannsókn sem birtist í vísindatímaritinu Culture, Health and Sexuality kemur fram að samkynhneigðir unglingar á Íslandi eru tvöfalt líklegri en aðrir unglingar til að ætla að flytja burt frá sinni heimabyggð í framtíðinni.

Í almennri umræðu kemur fram að samkynhneigðir unglingar eigi sérstaklega erfitt uppdráttar í smærri byggðarlögum og því vekur sérstaka athygli að enginn munur kemur fram á búferlafyrirætlunum þeirra sem eru búsettir í þéttbýli eða dreifbýli. Unglingar búsettir á landsbyggðinni eru þó líklegri til að ætla að flytja til höfuðborgarsvæðisins en unglingar á höfuðborgarsvæðinu eru líklegri til að ætla að flytja af landi brott.

Fyrsti höfundur greinarinnar er Einar Þorsteinsson prófessor við University of New England í Ástralíu en aðrir höfundar eru Þóroddur Bjarnason, Natasha Loi og Ársæll Már Arnarson. Þóroddur segir að fram til þessa hafi verið gengið út frá því að samkynhneigðir krakkar í strjálbýli séu líklegri til að vilja flytja en jafnaldrar þeirra í þéttbýli. Þetta hafi verið skoðað erlendis þar sem svipaðar hugmyndir eru ráðandi en niðurstöður þeirra rannsókna benda til að þetta sé ekki raunin.

 

„Niðurstaða okkar rannsóknar er sú  að samkynheigðir unglingar eru miklu líklegri til að vilja flytja.  Það er ekki munur á unglingum í þéttbýli og dreifbýli að þessu leyti. Það eru fleiri krakkar sem vilja flytja úr dreifbýli í þéttbýli en vilja flytja úr þéttbýli í dreifbýli, en það á við um bæði samkynhneigða og gagnkynheigða unglinga.“ segir Þóroddur. 

„Það er áhugavert að velta fyrir sér þessu með hærri búferlafyrirætlanir - að einhverju leyti virðist þetta snúast um það að fá fjarlægð frá vinum og fjölskyldu til að átta sig á lífinu og tilverunni. Í Bandaríkjunum er t.d. talað um að ungt samkynhneigt fólk flytji ekki síður frá Philadelpia til Boston en frá sveitinni til San Fransisco“ segir Þóroddur.

Rannsóknin er hluti af rannsóknarverkefninu Byggðafesta og búferlaflutningar sem Þóroddur Bjarnason prófessor við Háskólann á Akureyri stýrir í samstarfi við Byggðastofnun og hóp fræðafólks við Háskólann á Akureyri, Háskóla Íslands og Háskólasetur Vestfjarða. 

Fréttin hefur verið uppfærð með tilvitnun og fyrirsögninni hefur verið breytt.

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi