Fjórir ferðamenn handteknir fyrir brot á sóttkví

Mynd með færslu
Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar því ekki beint. Mynd: RÚV - Bragi Valgeirsson
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í gærkvöld afskipti af fjórum ferðamönnum sem áttu að vera í sóttkví. Laust fyrir klukkan átta í gærkvöld var lögreglan kölluð til vegna ölvaðs manns sem reyndi að stofna til slagsmála á Laugavegi. Það reyndist erlendum ferðamaður sem var nýkominn til landsins og átti að vera í sóttkví.

Í dagbók lögreglunnar segir að hann hafi verið mjög ölvaður og verið með dólg við lögreglumenn. Hann neitaði að gefa upp nafn og var án skilríkja.

Á tíunda tímanum handtók lögreglan þrjá erlenda ferðamenn á veitingahúsi í miðborginni. Þeir voru nýkomnir til landsins og áttu að vera í sóttkví. Lögreglan hafði áður haft afskipti af þeim eftir að tilkynnt var um brot þeirra á sóttkví. 

Í eftirliti lögreglunnar með veitingastöðum í Reykjavík og Hafnarfirði var allt til fyrirmyndar, og þeir staðir sem áttu að vera lokaðir voru lokaðir.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi