Ræðst næstu tvo sólarhringa hvort aðgerðir verði hertar

Mynd með færslu
 Mynd: Lögreglan á höfuðborgarsvæ� - RÚV
Það ræðst næstu tvo sólarhringa hvort yfirvöld grípa til hertra aðgerða vegna þriðju bylgju kórónuveirufaraldursins. Þetta segir Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn. „Við vorum að vonast til að við gætum nálgast þetta með öðrum hætti.“

Það ræðst næstu tvo sólarhringa hvort yfirvöld grípa til hertra aðgerða vegna þriðju bylgju kórónuveirufaraldursins. Þetta segir Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn. „Við vorum að vonast til að við gætum nálgast þetta með öðrum hætti.“

38 smit greindust innanlands í gær. Helmingur þeirra var í sóttkví. Nýgengi smita á hverja hundrað þúsund íbúa síðustu tvær vikur er hvergi hærra á Norðurlöndum en hér.  

Þetta er svipaður fjöldi og síðustu daga og sagði Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, í hádegisfréttum RÚV að það væri út af fyrir sig ágætt að faraldurinn væri í línulegum vexti en ekki veldisvexti. 

Víðir Reynisson segir að staðan verði tekin á morgun. Beðið sé eftir útreikningum frá tölfræðiteyminu til að átta sig á hvort einhverjar líkur séu á fækkun smita. Þá verði einnig að horfa til ástandsins á Landspítalanum þar sem fjölmargir starfsmenn eru annaðhvort í sóttkví eða einangrun.

Hann segir að þeir hafi vonast til að þeir gætu nálgast þetta með öðrum hætti í þriðju bylgjunni.  „Það verður bara að koma í ljós hvort við höfum haft rangt fyrir okkur með það og þar af leiðandi verði það niðurstaðan að grípa til harðari aðgerða. Ég myndi segja að næstu tveir sólarhringar skeri úr um það.“

Ný reglugerð tekur gildi á mánudag þar sem öllum vínveitingastöðum verður leyft að opna aftur. Þeim var lokað eftir hópsýkingu á tveimur skemmtistöðum í miðborg Reykjavíkur. Staðirnir verða engu að síður að tryggja að allir geti setið líkt og tíðkast á veitingastöðum og kaffihúsum.  

Víðir segir að þeim hafi borist ábendingar sem þeir hafi tekið taka mark á.   „Til að mynda veitingastaður þar sem hægt var að fá sér hamborgara og bjór mátti hafa opið en ekki vínveitingastaður þar sem þú gast setið og fengið þér bjór. Hamborgari fælir ekki veiruna frá.“ Þeir hafi ekki talið annað forsvaranlegt en að reyna að finna leiðir enda lausnamiðað fólk. „Stundum höfum við rétt fyrir okkur og stundum ekki.“

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi