Metfjöldi tilfella í Bretlandi og Frakklandi í gær

26.09.2020 - 02:14
epa08695071 People enjoy a night out in Soho in London, Britain, 24 September 2020. The UK government has announced that pubs, bars and restaurants must close by 10pm starting Thursday 24 September. The new restrictions have been put in place to help curb the recent spike in cases of Coronavirus in the UK.  EPA-EFE/ANDY RAIN
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Metfjöldi tilfella kórónuveirunnar sem veldur COVID-19 greindist bæði í Bretlandi og Frakklandi síðasta sólarhring. Yfir 16 þúsund sýni reyndust jákvæð í Frakklandi hefur CNN eftir þarlendum heilbrigðisyfirvöldum, og rúmlega 6.600 ný tilfelli voru greind í Bretlandi.

Alls hefur yfir hálf milljón tilfella nú greinst í Frakklandi samkvæmt tölfræðivefnum Worldometers. Þar hafa hátt í 32 þúsund látið lífið af völdum COVID-19. Hvergi í Evrópu hafa fleiri dáið af völdum sjúkdómsins en í Bretlandi, þar sem nærri 42 þúsund eru látnir. Þar eru tilfelli ríflega 420 þúsund.

Mörg smit rakin til skóla

Mörg ný smit eru rakin til háskóla í Evrópu. Á þessum árstíma eru jafnan nýnemafögnuðir og aðrar skemmtanir í háskólum víða um álfuna. Allir nemendur við Ecole hoteliere de Lausanne, virtasta hótel- og veitingaskóla Sviss, eru í sóttkví, alls 2.500 talsins. 600 nemendur háskólans í Glasgow í Skotlandi voru beðnir um að fara í sóttkví eftir að 124 smit greindust þar. 
Víða um álfuna hafa stjórnvöld ákveðið að grípa til harðari aðgerða á ný til þess að bregðast við útbreiðslunni. 

Yfir 32 milljónir tilfella hafa nú greinst á heimsvísu, og um 990 þúsund eru látnir af völdum COVID-19. Um fimmtungur allra greindra tilfella og dauðsfalla eru í Bandaríkjunum. Mike Ryan, yfirmaður hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, óttast að tvær milljónir manna eigi eftir að deyja af völdum COVID-19 áður en bóluefni verður klárt. Andlátin gætu jafnvel orðið fleiri ef ríki eru ekki tilbúin að grípa til ráðstafana.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi