Kajakróður léttur miðað við lífið

Mynd: RÚV / Menningin

Kajakróður léttur miðað við lífið

26.09.2020 - 12:38

Höfundar

„Þú getur ekki gert mikið stærri breytingu á þínu lífi en að fara í þetta ferli, það breytist allt,“ segir Óskar Páll Sveinsson, leikstjóri heimildamyndarinnar Á móti straumnum sem verður frumsýnd á RIFF.

Myndin rekur lífshlaup Veigu Grétarsdóttur og leiðangur hennar þar sem hún reri á sjókajak rangsælis í kringum landið og safnaði áheitum fyrir Pieta samtökin. „Myndin fjallar um þessi tvö stóru ferðalög Veigu. Annars vegar þetta magnaða afrek að róa rangsælis kringum Ísland, á kajak, á móti straumnum. Hún er fyrsta manneskjan í heiminum sem fer þessa leið og það er kannski góð ástæða fyrir því, því þetta er lífshættulegt,“ segir Óskar Páll. „Svo er það hin sagan, hennar persónulega saga, sem hefst einmitt líka á Ísafirði, þar sem hún fæðist sem lítill strákur og er skírður Veigar. Svo fer hún út í lífið og kemur aftur til Ísafjarðar sem Veiga.“

Veiga fór í kynleiðréttingaraðgerð fyrir um 6 árum. „Það kom að því að því að hún gat ekki lifað lengur eins og hún er og fer í sitt kynleiðréttingarferli, við förum í gegnum það með henni,“ segir Óskar Páll. Myndin dregur fram hliðstæður þess ferlis og kajakferðarinnar. „Eins og í kajakferðinni þá lendir hún í miklu ölduróti en það er oft sléttur sjór inn á milli. Inni í þessu er svo stór og falleg ástarsaga og töluverður húmor, hún er mikill húmoristi. Þannig að þetta eru þessi tvö stóru ferðalög hennar Veigu fléttuð saman í eina mynd, á móti straumnum,“ segir hann. 

Handrit myndarinnar skrifaði Margrét Örnólfsdóttir og Pétur Einarsson framleiðir ásamt Kristínu Ólafsdóttur. Hún verður frumsýnd á RIFF kvikmyndahátíðinni 3. október. 

Nánari upplýsingar um sýningu myndarinnar má finna hér
Nánari upplýsingar um leiðangurinn og Veigu má finna hér.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Áskorun að halda RIFF í núverandi árferði

Innlent

Fjöldi fólks fagnaði sögulegri kajakferð Veigu

Innlent

Býr sig undir erfiðasta kaflann í hringróðri

Vestfirðir

Rær á móti straumnum umhverfis landið