Fæddi stúlkubarn á slökkvistöðinni í Skógarhlíð

Mynd með færslu
 Mynd: Slökkvilið höfuðborgarsvæð - RÚV
Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins fékk heldur óvænta heimsókn í gærkvöld þegar boð barst frá ljósmóður á Landspítala um að von væri á barnshafandi konu sem væri í þann mund að eignast barn.

Foreldrarnir voru á leið á fæðingardeild Landspítalans en sáu ekki fram á að komast á leiðarenda í tæka tíð þar til barnið kæmi í heiminn. Því beindi ljósmóðir, sem þau voru í símasambandi við, foreldrunum að slökkvistöð Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins í Skógarhlíð, og gerði slökkviliðsmönnum viðvart um komu þeirra. Þeir tóku á móti foreldrunum í bílasal slökkvistöðvarinnar og fluttu konuna úr heimilisbílnum yfir á sjúkrabörur og áleiðiss inn í sjúkrabíl. 

Þegar í sjúkrabílinn var komið dró heldur en ekki til tíðinda því réttum tveimur mínútum eftir komuna þangað fæddist myndarstúlka á slaginu 20:00. Sjúkrabíllinn stóð þá ennþá inni í bílasalnum.  Móður og barni heilsast vel og voru þau flutt yfir á fæðingardeild Landspítala eftir fæðinguna auk þess sem heimilisbíllinn var ferjaður á milli.

Slökkviliðið greinir frá þessu á Facebook síðu sinni.

 

Skjáskot af Facebook síðu Slökkviliðs höfuðborgarvsæðisins
bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi